Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 11. apríl 2006, kl. 18:37:38 (7622)


132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[18:37]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður er aðeins búinn að tapa þræði út af því sem gerst hefur hér í millitíðinni frá því ræða hv. þingmanns var haldin. En svo þráðurinn sé nú upptekinn þá rökstuddi hv. þingmaður með nokkuð yfirgripsmiklum hætti hvers vegna hún teldi sænsku leiðina ekki vænlega hér á Íslandi. Hún nefndi sem dæmi að aðeins Svíar hefðu tekið þessa leið upp. Aðrar þjóðir hefðu hafnað henni og nefndi hún Noreg og Danmörku í því sambandi.

Mig langar að það komi hér fram svo því sé til haga haldið að búið er að leggja fram stjórnarfrumvarp í finnska þinginu. Það er að öllum líkindum um það bil komið til afgreiðslu. Það er talið alveg víst að fyrir því sé þingmeirihluti. Gert er ráð fyrir því að ef Finnar samþykkja þetta frumvarp sitt fylgi Eystrasaltslöndin í kjölfarið.

Mér finnst mikilvægt að þetta sé sagt hér vegna þess að Finnland og Eystrasaltslöndin eiga gríðarlegra hagsmuna að gæta við að stöðva mansalið sem kemur að hluta til frá Eystrasaltslöndunum og mikið til í gegnum Finnland inn til Skandinavíu.

Það hefur sýnt sig að sænska aðferðin við að banna kaup á kynlífsþjónustu er virkt meðal í baráttunni gegn mansali. Stúlkurnar koma yfir landamæri Finnlands og Svíþjóðar og til Noregs og það er sannarlega þess virði að beita öllum þeim ráðum sem við höfum til að reyna að stöðva það flæði og hefur sænska leiðin reynst affarasæl í þeim efnum. Það skiptir hins vegar máli að Svíar séu ekki einir. Það skiptir máli að Finnar taki upp sömu aðferð og einnig baltnesku löndin, Eystrasaltslöndin og þess vegna Noregur. Mér fyndist það sannarlega saga til næsta bæjar og til fyrirmyndar ef úr norðurálfu bærust þau boð að vændi og mansal sé óásættanlegt og til þess höfum við þetta öfluga tæki.