Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 11. apríl 2006, kl. 18:39:52 (7623)


132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[18:39]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í þeirri nefnd sem við báðar áttum sæti í, starfshópi sem skilaði skýrslu til dómsmálaráðherra um mismunandi löggjöf um vændi á Norðurlöndum, að ýmsar þjóðir voru að velta þessum hlutum fyrir sér. Málið tafðist reyndar í nefndinni, m.a. vegna þess að verið var að skoða hvað aðrar þjóðir væru að gera, alla vega skildi ég þannig töfina á skilum nefndarinnar.

Við vissum af því að það voru ákveðnar hugleiðingar í gangi í Finnlandi. En við höfðum ekki fengið neina staðfestingu frá öðrum þjóðum um þeirra skref. Ekkert sem hægt var að festa fingur á.

Hins vegar breytir það því ekki að við Íslendingar munum taka okkar ákvarðanir sem byggjast á okkar eigin veruleika í þessum málum. Veruleiki okkar hér á Íslandi árið 2006 er allur annar en veruleiki Svía á árinu 1999. Við vitum að götuvændi og mansal voru verulegt vandamál í Svíþjóð á þeim tíma. Við vitum líka um þá umræðu sem var þá í gangi um ofbeldi gagnvart konum. Þetta varð kveikjan að því að ákveðið var að fara þessa leið í Svíþjóð.

Birtingarmynd vændis hér á Íslandi er allt önnur. Götuvændi er t.d. ekki okkar veruleiki. Í Svíþjóð er sagt að vændi sé ofbeldi karla gagnvart konum en þrátt fyrir skort á rannsóknum sjáum við að birtingarmyndin er önnur hér. Af þeim fáu rannsóknum sem til eru sjáum við að ungir strákar stunda vændi í meira mæli en ungar stelpur.

Við getum ekki fært hugmyndafræði sem gengur út frá einum veruleika yfir á allt annan veruleika. Þannig að við megum ekki fylgja því sem aðrar þjóðir gera án þess að vega og meta hvort það hentar þeim aðstæðum sem eru hér á landi.