Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 11. apríl 2006, kl. 18:46:32 (7626)


132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[18:46]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra um breytingu á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Ég vil byrja á að fagna því að þetta ágæta frumvarp er komið fram og lýsa ánægju minni með þá vinnu sem Ragnheiður Bragadóttir prófessor hefur lagt í greinargerð og athugasemdir með frumvarpinu og þá rannsóknarvinnu sem innt hefur verið af hendi. Margar góðar og gagnlegar upplýsingar liggja til grundvallar frumvarpinu. Segja má, eins og hæstv. dómsmálaráðherra gerði grein fyrir, að breytingarnar séu í fimm meginliðum. Til að eiga kost á að stytta mál mitt frekar get ég strax lýst stuðningi við þrjá megindrætti frumvarpsins hér og nú, þó með ákveðnum fyrirvara um þá vinnu sem eftir er í allsherjarnefnd, þ.e. þar sem frumvarpið kemur inn á fyrningarfrestinn í kynferðisbrotum gagnvart börnum annars vegar og hins vegar breytingin á svokölluðu vændisákvæði þar sem greinir á milli þeirrar afstöðu og tillögu sem gerð er í frumvarpinu og afstöðu minnar til þessara mála.

Það sem mér finnst ánægjulegast við frumvarpið eru breytingarnar sem gerðar eru á nauðgunarákvæðinu í 194. gr. og þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að fella niður 195. og 196. gr. Við eigum eftir að skoða nauðgunarákvæðið betur í allsherjarnefnd og þær breytingar sem eru lagðar til. Meginmálið er kannski að eins og verknaðaraðferðum brotsins hefur verið lýst hefur megináherslan verið lögð á ofbeldið tengt brotunum. En það sem er hins vegar þungamiðjan í þessum brotum, þ.e. brotin gegn kynfrelsi fólks, hefur í rauninni fallið í skuggann.

Aðaláherslan í þessum málum á að vera að þetta sé brot gegn sjálfsákvörðunarrétti fólks varðandi kynlíf og frelsi þess og friðhelgi. Það er það sem er alvarlegast fyrir þolendur þessara brota. Þess vegna er í frumvarpinu núna, með breytingunum á þessum ákvæðum, mikilvægi þess undirstrikað að draga úr áherslunni sem verið hefur á verknaðaraðferðum og megináherslan hins vegar lögð á að kynmök við þolandann séu án samþykkis hans og þannig sé verið að brjóta gegn sjálfsákvörðunarrétti og athafnafrelsi viðkomandi þolanda gagnvart kynlífi.

Ég vil lýsa mikilli ánægju með þetta og þessi breyting á ákvæðinu eins og hún er, er í takt við breytingar sem gerðar hafa verið í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við og meira í takt við þær áherslur sem eru í breskum og írskum hegningarlögum hvað þetta varðar.

Hins vegar voru ákvæðin í 195. gr. og 196. gr. sem var sérstaklega ætlað að veita aukna vernd þeim sem þau ákvæði taka til, en gerðu í rauninni ekki — mér finnst mjög í áttina að þau brot sem þar féllu undir séu núna felld undir nýtt nauðgunarhugtak eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Við hljótum líka að fagna því að verið er að þyngja refsimörkin við samræði eða önnur kynferðismök við börn yngri en 14 ára. Fyrningarfresturinn lengist einnig gagnvart þeim brotum og þetta verður lagt að jöfnu við nauðgunarbrotin fyrir. Þetta er enn eitt. Það er líka til bóta í frumvarpinu að verið er að lengja fyrningarfrestinn í kynferðisbrotum gagnvart börnum og er hann miðaður við 18 ár. En með því að verið er að hækka refsimarkið í þessu mun þetta auðvitað fyrnast á lengri tíma. Þetta er nú allt það sem ég er mjög sátt við í frumvarpinu og styð eindregið og eins almennt ákvæði um refsiábyrgð vegna kynferðislegrar áreitni.

Hins vegar er ég síður sátt við að ekki skuli gengið lengra varðandi fyrningarfrest í kynferðisbrotum gagnvart börnum. Á síðasta þingi lá hér frammi þingmannamál, frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum þar sem gert var ráð fyrir að fyrningarfresturinn í kynferðisbrotum gagnvart börnum yrði afnuminn með öllu. Ég var þeirra skoðunar þá og er enn að það frumvarp hafi gengið of langt en taldi hins vegar og tel enn að mikil og sterk rök séu fyrir því að lengja frestinn í alvarlegustu kynferðisbrotunum. Því mikill munur er á refsihæð þessara brota og hversu alvarlegar afleiðingar þau hafa fyrir börn í það heila tekið.

Aðalathugasemdir mínar við frumvarpið lúta hins vegar að breytingunni á svokölluðu vændisákvæði. Mér fannst mjög athyglisvert, frú forseti, að lesa í gegnum athugasemdir Ragnheiðar Bragadóttur prófessors, sérstaklega þar sem hún rekur ítarlega helstu kosti og galla þess að leggja refsingu við kaupum á vændi. Þegar ég var búin að lesa þetta í gegn, bæði kostina og gallana eins og prófessorinn tínir þá hérna til, fannst mér svona hending ráða hver niðurstaðan yrði ofan á miðað við rökin sem hún færir.

Prófessorinn telur upp í fjórum liðum kosti þess að gera kaupin á vændi refsiverð. Þetta eru svo sem sömu kostir og sömu rök og við þrír hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson tíndum til í afstöðu okkar í svokallaðri vændisskýrslu. Ég ætla aðeins að fá að halda þeim hér til haga. Fyrstu rökin eru í rauninni þau að seljandi vændis sé illa settur félagslega og neyðist til að selja líkama sinn. En kaupandi vændis hafi val. Í þessu samhengi er lögð áhersla á þennan mikla aðstöðumun sem er á milli kaupanda og seljanda. Síðan það sjónarmið að líkami fólks eigi aldrei að vera söluvara. Með því að kveða á um það í hegningarlögum að refsivert sé að kaupa vændi þá erum við fyrst og fremst að leggja áherslu á það. Prófessorinn leggur líka áherslu á þau sterku siðferðislegu skilaboð til samfélagsins með að gera þessa háttsemi refsiverða.

Í öðru lagi leggur Ragnheiður Bragadóttir prófessor áherslu á almenn varnaðaráhrif þess að gera kaupin á vændi refsiverð sem geti leitt til að eftirspurnin eftir vændi minnki og síðan muni þá framboðið minnka í kjölfarið. Þetta er það sem hún tekur til.

Í þriðja lagi leggur hún áherslu á að ef eftirspurn eftir vændi minnki muni einnig draga úr mansali.

Í fjórða lagi þau rök að kaupandi vændis sem til stendur að ákæra sé viljugri til að bera vitni gegn vændismiðlara, ef þess er kostur að tekið verði tillit til samstarfsvilja hans við ákvörðun refsinga, samanber 9. tölulið 70. gr. hegningarlaganna.

Ragnheiður Bragadóttir gerir ítarlega grein fyrir göllunum líka, en mér finnst þeir mjög veigalitlir og vera léttvægir í þessu samhengi. Hún talar um litla reynslu af sænsku löggjöfinni. Heildarrannsókn hafi ekki farið fram og þá hlýt ég að spyrja: Hvenær almennt fer fram heildarrannsókn á afleiðingum nýrrar löggjafar? Ég minnist þess ekki svona í fljótu bragði að það sé alþekkt að slíkar rannsóknir fari fram.

Síðan nefnir hún að þó dregið hafi úr götuvændi í Svíþjóð séu vísbendingar um að vændi hafi færst í undirheimana með þeim afleiðingum að erfiðara sé að hafa eftirlit með því og veita þeim sem stunda vændi félagslega aðstoð. Þannig hafi staða vændismiðlara hugsanlega styrkst með því að kaupendur vændis verði ófúsari að bera vitni.

Þá segir, með leyfi forseta:

„Þótt mansal dragist saman í einu landi getur það þýtt samsvarandi aukningu í öðru landi.“ Þ.e. að mansal færist úr stað. Svoleiðis verður það auðvitað meðan þjóðir eru ekki allar með sömu löggjöfina að þessu leyti. Hún segir einnig: „Engin lausn er að flytja vandann til annarra landa heldur þarf samstillt átak þjóða til þess að taka á honum.“

En ég vil fyrst og fremst segja að við getum aldrei borið ábyrgð nema á eigin löggjöf. Eins og komið hefur fram í umræðunni hjá fyrri hv. þingmönnum hafa Svíar sett þessi lög. Í Finnlandi liggur fyrir stjórnarfrumvarp á þingi sem á eftir að afgreiða frá þinginu, en það er þó stjórnarfrumvarp. Maður hefur heyrt frá Eystrasaltslöndunum að þau muni síðan fylgja í kjölfarið með sambærilega löggjöf. Þetta dekkar töluverðan hluta af Norðurlöndum og nágrannalöndunum.

Það sem vakti sérstaklega athygli mína í athugasemdum prófessorsins er það sem hún segir, með leyfi forseta:

„Erfitt er að fullyrða nokkuð um hver almenn varnaðaráhrif lögfesting sænsku leiðarinnar mundi hafa, enda er ekkert vitað um það hverjir eru kaupendur vændis á Íslandi.“

Síðan segir hún:

„Hugsanlega fælir sænska leiðin frá þá kaupendur sem talist geta „venjulegir viðskiptavinir“, þ.e. þá sem kaupa þjónustu vændiskvenna sjaldan og stundum nánast fyrir tilviljun. Hins vegar er vafasamt að hún hafi áhrif á þá ofbeldisfyllri, sem hafa sterkari vilja til háttseminnar.“

Ég vil, frú forseti, fá að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra, í ljósi breytinga á þessu ákvæði í frumvarpinu, hvort hann hafi í hyggju að láta fara fram einhverjar frekari rannsóknir. Ef þetta eru rökin fyrir að málið sé ekki nægjanlega rannsakað í Svíþjóð og að rannsóknir séu ekki til á því hverjir séu kaupendur vændis, það séu jafnframt rök, hvort hugsunin sé þá sú, því við hljótum alltaf jafnt og þétt að skoða áhrif löggjafarinnar og breytingar, að ráðast í frekari rannsóknir á þessu.

Frú forseti. Þegar ég var búin að lesa í athugasemdunum rökin fyrir og gegn að gera kaupin refsiverð kom það mér á óvart að sjá hver niðurstaða prófessorsins var. Hún segir, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af því sem fram hefur komið er ljóst að ýmis sannfærandi rök hafa verið færð fram bæði með og á móti því að lögfesta hér refsiákvæði um vændiskaup. Lagabreytingar verða að taka mið af þjóðfélagsviðhorfum og aðstæðum hverju sinni. Því er nauðsynlegt að frekari rannsóknir fari fram á vændi á Íslandi, umfangi þess og eðli og hvernig best sé að taka á því, áður en lagðar eru til lagabreytingar í ætt við þá sem gerð var í Svíþjóð. Þá er það einnig verðugt rannsóknarefni hvað ræður því að vændi er svo lítt til meðferðar í réttarvörslukerfinu, ekki síst í ljósi þess að vitað er að það er stundað hér í einhverjum mæli.“

Í umræðunni áðan kom fram að samkvæmt frumvarpinu stendur til að fella úr hegningarlögunum að refsivert sé að selja vændi. Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að það sé rétt og eðlilegt, enda ákvæðið allt að því aldargamalt og í raun vekur furðu að það skuli enn vera í íslenskum hegningarlögum miðað við hversu þjóðfélagið hefur breyst og ýmis viðhorf í þjóðfélaginu. Hins vegar kom það mér mjög á óvart þegar hæstv. dómsmálaráðherra fjallaði um þetta mál áðan að þessu sé stillt upp þannig að í stað þessa ákvæðis komi fram annað ákvæði, eða gerð tillaga um annað ákvæði, sem sé ætlað að draga úr sýnileika vændisins. Ég get ekki séð að það sé stóra hættan í öllum þessum málum hvort vændi er meira eða minna sýnilegt. Þá finnst mér aðrir hagsmunir, sem við hv. þingmenn töluðum fyrir sem deildum skoðunum í vændisnefndinni, mun sterkari vitandi það samkvæmt skýrslum sem hafa verið unnar á vegum dómsmálaráðuneytisins að þeir sem hafa verið að bjóða vændi á Íslandi eru alla jafna þeir sem hafa orðið undir í samfélaginu. Börn sem hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun, ánetjast fíkniefnum og eftir atvikum fátækar konur frá Eystrasaltslöndunum eða einhverjum öðrum heimshlutum þar sem efnahagsleg staða manna er allt önnur. Þetta eru hagsmunir sem mér finnst vert að virða og vernda.

En það hvort vændið er sýnilegra eða ekki finnst mér ólíkt minni hagsmunir. En ég geri ráð fyrir að málið fái góða umfjöllun í allsherjarnefnd og síðan langa umræðu og ítarlega eftir að málið kemur úr nefnd.

Að endingu langar mig að segja eitt með tilliti til mansalsins. Ég las fyrirsögn í sænsku blaði sem fjallaði um umræðu í finnsku blaði um umræðu á finnska þinginu þegar málið var lagt þar fram fyrir tveimur árum. Fyrirsögnin var í þá veru að það væru tvær forsendur fyrir mansali. Önnur væri eftirspurn eftir vændi, eftir kynlífi til kaups. Hin væri fátækt í þessum nýfrjálsu ríkjum Evrópu.

Það eru því tvær leiðir til að draga úr mansalinu og sú sem er miklu nærtækari er með lögum, að reyna með almennum og sérstökum varnaðaráhrifum að draga úr þessari eftirspurn. Menn geta ekki endalaust talað þannig að það sé ekkert samhengi á milli mansals annars vegar, sem allir fordæma, og hegningarlagaákvæða um vændi hins vegar.