Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 11. apríl 2006, kl. 19:05:10 (7629)


132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:05]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Rannsóknir munu fara fram á þessu sviði af hálfu vísinda- og fræðimanna, bæði félagsfræðinga og lögfræðinga. Ég held að það sé tryggt að þessi mál verði rannsökuð áfram.

Ég tel hins vegar að Svíar séu í sömu sporum og lýst er í greinargerð prófessorsins. Þeir vilja gjarnan að þessi heildarúttekt fari fram á áhrifum þessarar löggjafar. Ég hef setið fundi með sænska dómsmálaráðherranum þar sem hann hefur verið spurður um áhrif löggjafarinnar og hann hefur sagt: Við vitum að þetta hefur gerst. Við vitum að það hefur dregið úr götuvændi. Við vitum að við höfum kannski betri stýringu varðandi mansalið en við vitum ekki um heildaráhrifin. Við viljum gjarnan fá þá niðurstöðu líka. Það er það sem prófessorinn vísar til. Ef þessi rannsókn af hálfu Svía lægi fyrir þyrfti ekki að orða þetta svona en hún liggur ekki fyrir. Svíar sjálfir telja að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera úttekt á því hvernig þessi einstæða löggjöf hefur tekist. Engin önnur þjóð í heiminum hefur tekið þetta í lög sín.