Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 11. apríl 2006, kl. 19:06:23 (7630)


132. löggjafarþing — 103. fundur,  11. apr. 2006.

Almenn hegningarlög.

712. mál
[19:06]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla í þessu samhengi, vegna orða hæstv. dómsmálaráðherra sem ég fagna enn og afstöðu hans til frekari rannsókna á þessu sviði, að árétta að markmið laganna í Svíþjóð, þegar lögin voru sett um að gera kaup á vændi refsivert, var fyrst og fremst að draga úr ofbeldi gegn konum. Markmiðið var ekki að draga úr götuvændi. Það var ekki markmið í sjálfu sér.

Önnur afleiðing af þessum lögum er sú að Svíþjóð þykir ekki jafneftirsóknarvert land fyrir þá sem stunda mansal, fyrir milliliðina, og það þótti áður. Það er ekki jafneftirsóknarvert og önnur Norðurlönd, hvað þá önnur Evrópulönd. Ég átti þess hins vegar kost á dögunum að hlusta á sænska dómsmálaráðherrann þar sem hann lýsti mikilli ánægju með árangurinn af þessari löggjöf. Ég man ekki eftir því í nokkuð ítarlegri ræðu hans að hann legði sérstaka áherslu á að það þyrfti að rannsaka þetta frekar.

En það er ýmislegt annað sem við þyrftum líka að rannsaka, m.a. kynferðisbrot gagnvart börnum. Það hefur orðið mikil fjölgun mála, fjölgun tilkynninga til lögreglu. Menn velta því fyrir sér hvort brotunum sé að fjölga eða kærunum. Þegar það kemur til tals þá yppa menn öxlum og enginn veit hvers vegna svo er. Ég legg meira upp úr því að fara í viðamiklar rannsóknir á þeim brotum og ástæðum þess að tilkynningum og kærum fjölgar en að rannsaka mismunandi kynhegðun milli landa. Ég held við getum að hluta til stuðst við erlendar rannsóknir á þeim hópi sem kaupir sér vændi. Ég held að það sé ekki svo mikill munur á kúnnahópnum sem slíkum, kaupandanum, eftir því hvar hann býr á Norðurlöndunum. Ég vil fá að leggja áherslu á það, frú forseti.