132. löggjafarþing — 106. fundur,  21. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[19:04]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég geri mér grein fyrir því að þetta mál þarf að afgreiðast með hraði. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að nefndin þurfi að fara mjög vandlega yfir það hvort þetta sé rétta leiðin sem hér er lögð til. Ég held að verkalýðshreyfingin og vinnumarkaðurinn í landinu séu alls ekki undir það búin að taka við frjálsri för launafólks núna í vor. Ég get tekið undir allt sem sagt hefur verið í þeim ræðum sem haldnar hafa verið hér á undan en til viðbótar vil ég segja að lágmarkslaun á Íslandi eru bara ekki nógu há til að vinnumarkaðurinn fari ekki úr skorðum við þetta, vegna þess að inn í landið munu koma margir útlendingar til að vinna á þessum lágmarkslaunum og það mun setja allan vinnumarkaðinn að öðru leyti úr skorðum. Það er ekki auðvelt að koma í veg fyrir að svo fari að fólk með kannski ágætisstarfsmenntun, jafnvel iðnmenntun, komi hingað og fari að vinna á lágmarkslaunum, bæði í iðnaði og öðrum störfum, og við það muni allt fara úr skorðum.

Ég tel að verkalýðsfélögin og hið opinbera hafi alls ekki unnið heimavinnuna sína á þeim tíma sem liðinn er. Við þurfum á öllum þeim fresti að halda sem fyrir hendi getur verið til þess að undirbúa okkur undir þessa frjálsu för eins og hún mun verða. Þann frest eiga menn að skoða vandlega núna hvort ekki eigi að taka sér, vegna þess að ég sé ekki að það græðist mikið á því að opna með þeim hætti sem hér er lagt til en það gæti hins vegar orðið mikið tjón vegna þeirrar stöðu sem upp getur komið.

Verkalýðsfélögin koma auðvitað sjónarmiðum sínum að núna eftir að málið verður komið til nefndar, en ég legg mikla áherslu á að menn gefi sér ekki að þetta eigi að vera niðurstaðan heldur að skoða verði vandlega að taka sér lengri tíma til aðlögunarinnar og nýta hann betur. Ef það verður ekki gert tel ég að samningar verkalýðsfélaga og kjör fólks í mörgum greinum geti raskast mjög verulega og að við eigum eftir að sjá verulegan samdrátt í launakjörum fólks sem býr við beina samkeppni frá því fólki sem á nú möguleika á því að koma til Íslands ef svona fer. Þessu vildi ég koma á framfæri. Þó svo að tíminn sé stuttur vonast ég til að menn noti hann vel og kynni sér vandlega þau sjónarmið sem verkalýðsfélögin hafa fram að færa í þessu máli.