132. löggjafarþing — 106. fundur,  21. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[19:15]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst þetta nú ósköp þunn svör hjá hæstv. ráðherra. Mér fannst hann alls ekki svara þeirri spurningu af hverju málið er svona seint fram komið. Hæstv. ráðherra og fyrrverandi ráðherra og ríkisstjórnin hafa haft marga mánuði til að undirbúa þetta mál og leggja það hér fyrir þingið. Það er ekki boðlegt að þingið hafi aðeins fimm daga til að fjalla um það. Þetta er stórt mál í mínum huga. (Gripið fram í.) Ég nenni nú ekki að svara hv. þm. Pétri Blöndal.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra af því hann svaraði því ekki: Telur hann ekki eðlilegra að við höfum tímann fram til næstu áramóta, setjum lög núna sem gefa okkur aðlögun fram að þeim tíma, undirbúum stefnumótun og þær reglur, lagabreytingar og tillögur sem ASÍ hefur sett í málinu sem við teljum nauðsynlegt að komi fram. Hæstv. ráðherra segir: Við ætlum að setja niður nefnd í málið til að skoða það. En er ekki eðlilegt að þær tillögur liggi fyrir áður en Alþingi er gert að samþykkja þetta frumvarp eða samþykkja að falla frá þessari aðlögun?

Ég spyr t.d. um tillögur frá innflytjendaráði um hvernig standa skuli að samþættingu ólíkra hópa. Hvar eru þær tillögur? Liggja þær fyrir? Hvað með stefnumótun almennt í málefnum innflytjenda? Liggur það fyrir af hálfu stjórnvalda? Mjög mikil gagnrýni er í samfélaginu frá einstaka aðilum sem hafa kynnt sér þessi mál vel, að við séum alls ekki tilbúin í þá opnun sem hér á að fara fram.

Þess vegna finnst mér og spyr hæstv. ráðherra hvers vegna ekki sé hægt að fresta þessari opnun fram til áramóta. Við samþykkjum lög um að 1. maí — sem er náttúrlega úrslitaatriði að verði gengið frá lögum, að málinu verði frestað til næstkomandi áramóta. Ég held að staðreyndin sé sú að það séu fyrst og fremst Samtök atvinnulífsins sem eru að knýja á um þetta en ekki verkalýðshreyfingin (Forseti hringir.) enda er ekki samkomulag innan verkalýðshreyfingarinnar um málið.