132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[11:20]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög mörg orð um þetta frumvarp enda hefur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gert grein fyrir þeim tillögum sem við þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stöndum sameiginlega að. En við leggjum til að opnun vinnumarkaðar gagnvart hinum nýju aðildarríkjum Evrópusambandsins verði frestað um hálft ár eða fram til næstu áramóta þar til gengið hefur endanlega verið frá reglum sem við teljum nauðsynlegt að liggi fyrir áður en af þessu verður.

Í örstuttu máli þá er samhengið þetta. Árið 1993 göngum við að samningi um hið Evrópska efnahagssvæði sem opnar fyrir frjálst flæði vinnuafls launafólks. En á árinu 2004 fjölgar í Evrópusambandinu og þar með þeim ríkjum sem eiga aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði. Tíu ný ríki koma til viðbótar, einkum ríki frá Austur-Evrópu, Malta og Kýpur. Þessi ríki eiga það öll sammerkt að þar er mjög mikið atvinnuleysi. Eins og hér kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem vísaði í álitsgerð og greinargerð frá BSRB þá hafa rannsóknir sýnt að 7–9% ríkisborgara Eistlands, Lettlands og Litháens auk Póllands vilja nýta sér frjálsa för launafólks ef hún væri ótakmörkuð. Í þessum löndum sem eru fjölmenn er mikið atvinnuleysi þannig að vert er að leiða að þessu hugann. Enda hefur það sýnt sig að hér á landi hefur verið mjög mikil eftirsókn eftir atvinnu og stríður straumur fólks hefur leitað hingað eftir atvinnuleyfi. Þar eru þó þessar hömlur og það eftirlit sem um er rætt að numið verði úr gildi.

Hvað er í húfi? Í raun má segja að íslenska vinnumarkaðsmódelið sé í húfi. Hér er það fest í landslög að kjarasamningar, lágmarkssamningar sem verkalýðsfélögin gera um kjör sinna félagsmanna, skuli gilda sem lágmark á vinnumarkaði.

Síðan er það hitt sem er í húfi, þ.e. að hér verði ekki margar þjóðir í einu landi þannig að aðkomumönnum til landsins verði gert að búa við einhver allt önnur launakjör og réttindi en Íslendingum. Þetta þýðir að eftirlit þarf með því og aðhald gagnvart því að þessi lög og þetta vinnumódel sem við búum við haldi.

Það er rauður þráður í greinargerðum verkalýðsfélaganna að þau segja að stóra spurningin sé ekki — það á alla vega um ASÍ og BSRB — hvenær vinnumarkaðurinn opnist heldur hvernig og á hvaða forsendum þetta gerist. Menn hafa af því nokkrar áhyggjur að við séum ekki tilbúin með nægilega öruggt reglugerðaverk hvað þetta snertir.

Nú er það svo að ef ekkert verður að gert, ef þessi lög eða samsvarandi verða ekki lögfest, þá opnast vinnumarkaðurinn að fullu. Þegar hin nýju ríki komu inn í Evrópusambandið árið 2004 var ákveðið að veita heimildir til að takmarka för launafólks til ársins 2011. Við höfum í sjálfu sér heimild til að nýta okkur slíkar takmarkanir. Ríkisstjórnin hefur hins vegar valið þann kost að fara millileið í þessu máli, falla frá skilyrðum, falla frá takmörkunum, en jafnframt setja ákveðnar reglur, binda þær í lög og skuldbinda sig jafnframt til að setja frekari reglur um eftirlit sem unnið skal að í sumar til þess að ná fram þeim markmiðum sem verkalýðsfélögin hafa sett á oddinn. En ég endurtek að ef ekkert verður að gert þá falla þessar heimildir alveg brott og vinnumarkaðurinn opnast. Væri það góður kostur? Já, það finnst mörgum. Það finnst mörgum vera hinn eftirsóknarverði kostur. Samtök atvinnulífsins vildu helst sjá það þannig. Frjálshyggjuliðið vildi helst sjá það þannig, engar takmarkanir, allar gáttir opnar. Þess vegna gerist það, að við sem viljum varðveita vinnumarkaðsmódelið viljum greiða götu þessa frumvarps. Við erum ekki sátt við það að öllu leyti. Við teljum að hyggilegra hefði verið og hyggilegra sé, vegna þess að við eigum eftir að greiða um það atkvæði hér í þinginu, að fresta opnun vinnumarkaðarins um að minnsta kosti hálft ár og við leggjum fram tillögu í því efni, um að minnsta kosti hálft ár á meðan gengið er endanlega frá þeim reglum sem menn á annað borð hafa skuldbundið sig til að setja.

En þetta er sem sagt niðurstaðan. Þetta er málamiðlun. Hvorki eru þeir að hafa sitt fram sem hefðu viljað fresta opnuninni allar götur til 2011 — en þá opnast vinnumarkaðurinn. Við erum þegar búin að skuldbinda okkur til þess. Við ættum ekki annarra kosta völ en að opna vinnumarkaðinn að fullu eftir 2011 — annars vegar er þetta og hins vegar hitt sjónarmiðið að þeir sem vilja setja reglur og setja hömlur fá nokkru áorkað með þessum lögum.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Ég tek undir áherslur hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og ekki síst varðandi það sem snertir aðkomu fólks hingað til lands, sem snertir launafólk sem hingað kemur í atvinnuleit og sest hér að, en ekki síst fyrir okkar tilverknað og reyndar ágætt samstarf í félagsmálanefnd sem varð um það sammála að hert er á fyrirheitum hvað þetta varðar, þ.e. að móta stefnu í málefnum innflytjenda og að gerð verði framkvæmdaáætlun á grundvelli þeirrar stefnu.

Það er jafnframt sett í álit meiri hlutans að álit þessarar nefndar, þessarar vinnu, verði kynnt félagsmálanefnd fyrir 1. október árið 2006. Þess vegna og á þessum forsendum lýsi ég því yfir að ég tel og við teljum að það væri mjög mikilvægt að fresta opnun vinnumarkaðarins í að minnsta kosti um hálft ár og verða þannig við varnaðarorðum sem okkur berast víðs vegar úr verkalýðshreyfingunni. En náist það ekki fram þá munum við styðja málið engu að síður vegna þess að annars opnast allar gáttir. Við verðum að hafa þetta rækilega í huga, að ef ekkert verður að gert þá opnast vinnumarkaðurinn að fullu. Við skulum ekki gleyma að þrátt fyrir mismunandi áherslur innan verkalýðshreyfingarinnar, ábendingar BSRB um að heppilegt væri að fresta gildistökunni, ákall ASÍ um að við göngum frá þessu samkomulagi núna á þann hátt sem gert er í frumvarpinu, áskoranir frá ýmsum verkalýðsfélögum, Eflingu, frá Húsavík, Akranesi og víðar um að við frestum þessu enn lengur, að þrátt fyrir allar þessar mismunandi áherslur er þetta niðurstaða sem við teljum farsælast að samþykkja jafnvel þótt tillaga okkar verði felld, sem ég vona að ekki verði.