132. löggjafarþing — 111. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[12:56]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér í stuttu andsvari til að grennslast svolítið nánar fyrir um afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli. Mig langar að spyrja hv. þm. Jóhann Ársælsson að því hvort þingmenn Samfylkingarinnar hafi ekki hugleitt hvort ekki hefði verið betra að fara djúpleiðina, ef svo má segja, í þessu máli og koma frekar með breytingartillögu um að þessu yrði frestað til 1. maí árið 2009.

Í annan stað langar mig til að spyrja hvort hann sé sammála félaga sínum í þingflokki Samfylkingarinnar, hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, um að það sé hið besta mál að þessi lög fari núna í gegn, að það sé hið besta mál að við opnum fyrir frjálsa för fólks frá löndum Austur-Evrópu frá og með 1. maí árið 2006, þ.e. núna á mánudaginn.

Í þriðja lagi langar mig að inna eftir svari við spurningu um það — því hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson svaraði ekki þeirri spurningu minni — hver sé skoðun hv. þm. Jóhanns Ársælssonar á þeim umsögnum sem hafa borist frá verkalýðsfélögum víðs vegar um landið þar sem varað er mjög sterklega við þessu frumvarpi og farið fram á að sú leið verði farin að nýta heimildir til frestunar. Hvort hv. þm. Jóhann Ársælsson telji að þessi varnaðarorð verkalýðsformannanna séu hreinlega orðin tóm eða hann telji að þeir hafi eitthvað fyrir sér í þessum efnum. Hreinlega hvort þessir ágætu herramenn séu marktækir.