132. löggjafarþing — 112. fundur,  28. apr. 2006.

Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES og atvinnuréttindi útlendinga.

771. mál
[13:34]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Við 2. umr. um þetta mál var felld tillaga frá okkur fulltrúum Samfylkingarinnar og fulltrúum Vinstri grænna í félagsmálanefnd um að framlengja aðlögunarfrestinn til næstu áramóta. Engu að síður munum við styðja þetta mál og greiða því atkvæði í trausti þess að nefnd félagsmálaráðherra sem hefur það verkefni að styrkja vinnumarkaðskerfið og treysta betur regluverk og framkvæmd til að tryggja að ekki verði gengið gegn grundvallarréttindum launafólks, skili markvissum tillögum í því efni fyrir 1. nóvember næstkomandi. Sömuleiðis að framfylgt verði þeirri áherslu sem fram kemur í áliti meiri hluta félagsmálanefndar um að mótuð verði stefna í málefnum innflytjenda og að gerð verði framkvæmdaáætlun á grundvelli þeirrar stefnu. Áætlunin verði jafnframt kynnt félagsmálanefnd fyrir 1. október 2006. Á þessi tvö mál hefur félagsmálanefnd lagt áherslu og í trausti þess að þetta verði framkvæmt segjum við já við þessu þingmáli.