Tekjuskattur

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 15:01:54 (8119)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[15:01]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það svo gleðilegt að við, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson, deilum þeirri skoðun að okkur Íslendingum hafi gengið býsna vel í samkeppni þjóðanna og kannski ekki síst núna á síðasta áratug eða svo. Ég held að á því sé fyrst og fremst ein meginskýring. Það er sú skýring að á síðasta rúma áratug höfum við á Íslandi aukið mjög frelsi í verslun og viðskiptum og ekki síst með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið um að vera hluti af hinum evrópska markaði og fella niður þá múra sem voru á milli okkar og þess markaðar. Ég held að við deilum þeirri skoðun, ég og hv. þingmaður, að afl þeirra efnahagslegu framfara sem við þurfum á að halda sé frjálsræði í verslun og viðskiptum og við eigum að auka og efla það á þjóðþinginu svo sem kostur er.

Þess vegna er það enn þá augljósara að stærsta viðskiptahindrunin sem við höfum á Íslandi í dag er gjaldmiðill okkar, íslenska krónan. Hann er í sjálfu sér hindrun fyrir viðskiptin. Þess vegna til að halda áfram að efla og virkja efnahagslegar undirstöður og atvinnulífið er það sannfæring mín að við eigum að ryðja þeirri viðskiptahindrun úr vegi og eiga viðskipti okkar með sama gjaldmiðli og á því svæði sem við höfum ákveðið að sameinast í einum markaði á Evrópska efnahagssvæðinu og sækja þannig enn þá meiri hagvöxt og framfarir eins og við höfum m.a. séð hjá nágrannaríkjum okkar sem hafa ekki síður notið mikils árangurs þegar við förum vestast og austast til nágranna okkar og skoðum lönd eins og Írland og Finnland sem bæði hafa, af því að vera í fararbroddi evrópsku samvinnunnar, notið mjög góðs af því í atvinnu- og efnahagsmálum sínum.