Tekjuskattur

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 15:04:09 (8120)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[15:04]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að bæta aðeins við það sem við hv. þm. Helgi Hjörvar getum verið sammála um vil ég nefna að það er ekki einungis aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu sem hefur fært okkar miklar framfarir á undanförnum árum heldur líka atriði eins og skattalækkanir, einkavæðing, bætt samkeppnisumhverfi að mörgu leyti og almennt frelsi í utanríkisviðskiptum sem hefur aukist, ekki bara í viðskiptum við Evrópu heldur almennt. Um þetta getum við hv. þm. Helgi Hjörvar áreiðanlega verið sammála.

En varðandi þau vandamál sem gætu fylgt inngöngu okkar í Evrópusambandið og evrusvæðið þá er staðreyndin sú að viðskipti okkar við evrusvæðið eru í dag talsverður minni hluti af utanríkisviðskiptum okkar, um það bil 40%, og hefur fremur farið lækkandi sem hlutfall á allra síðustu árum, enda eru viðskipti okkar í mörgum mikilvægum atriðum frekar tengd dollara. Bretland sem ekki á aðild að Evrópusvæðinu er sennilega einhver mikilvægasti útflutningsmarkaður okkar. Bretar eru ekki á leiðinni inn í evrusamstarfið, ég held að það sé ljóst öllum sem hafa fylgst með umræðum um þau mál þar í landi og ekki er þess að vænta að aðrir nágrannar okkar, t.d. Svíar, muni fara þar inn á næstunni. Ég hygg að það að líta á evrusvæðið eins og þar sé um að ræða alla okkar markaði sé talsverður misskilningur á aðstæðum.

En það er annað vandamál sem ég tel að við verðum að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál sem snýst um það að ef við göngum inn í myntsamstarf að þessu leyti missum við algerlega tökin á mikilvægu stýritæki í hagstjórn okkar, sem er peningamálastefnan. Við getum haft ýmsar skoðanir á því og deilt um hvernig Seðlabankinn hefur nákvæmlega staðið sig í þeim efnum á undanförnum árum en peningamálastjórnin er engu að síður mikilvæg. Ef við förum inn í evrusamstarfið verðum við að eiga um það við peningamálastofnun seðlabankans í Frankfurt, evrópska seðlabankans, sem lýtur auðvitað allt öðru lögmálum og ákvarðanir hans byggja á allt öðrum forsendum en efnahagsástandið hér á landi.