Tekjuskattur

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 15:32:01 (8127)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[15:32]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fastir vextir verðtryggðir hafa lækkað úr fyrst 6% hjá Íbúðalánasjóði, síðan niður í 5,1% og svo niður í 4,15%, og fjöldi fólks hefur fest lán sín til 20, 30, 40 ára með 4,15% vöxtum. Það fólk nýtur þess bara næstu áratugi að þessu leyti og þetta er meiri hagsbót en það sem tapast í vaxtabótakerfinu.

En ég tek undir það með hv. þingmanni, auðvitað áttu þingmenn að vera vakandi fyrir því þegar fasteignaverð og eignaverð hækkaði svona mikið, að hækka mörkin í vaxtabótakerfinu gagnvart eignum, það er sjálfsagt, nákvæmlega eins og menn voru vakandi fyrir því að lækka prósentuna sem má taka sem hámark af skuldum vegna þess að vextir hafa lækkað. En ég fer ekkert ofan af því að þessi lækkun vaxta er sú langmesta kjarabót sem launþegar hafa fengið og ég nefndi það ekki í ræðu minni vegna þess að það er ekki ríkisstjórninni að þakka. Það er markaðurinn og það að lánhæfimat íslenskra banka er orðið svipað og ríkisins. Bankarnir eru orðnir svipað sterkir og þeir hafa getað veitt Íbúðalánasjóði verðskuldaða samkeppni sem hefur lækkað vexti á öllum markaðnum.