Tekjuskattur

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 15:33:37 (8128)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[15:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum um breytingu á lögum um tekjuskatt og breytingarnar snúa að fyrirtækjum og ganga út á að heimila fyrirtækjum að dreifa gengishagnaði umfram gengistap á næstu þrjú árin og jafna þannig gengissveiflu sem þau finna fyrir í bókhaldi sínu. Almennt hefur þessu verið tekið nokkuð vel hér við umræðuna en ég vek athygli á þeim tóni sem heyrist frá stjórnarandstöðunni og þá ekki síst frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa tekið þátt í þessari umræðu.

Við lögðum á það áherslu fyrir fáeinum vikum og höfum síðan hamrað á því með vaxandi þunga á undanförnum dögum að ríkisstjórnin setti út af vinnsluborði sínu og þar með út af vinnsluborði Alþingis þau frumvörp sem ekki er beinlínis áríðandi að verði að lögum fyrir sumarið og taki umræðu um þau mál sem brenna á þjóðinni. Þetta mál hér á ágætlega heima í þeim hópi, en það eru bara fleiri mál og það eru málefni sem við mundum forgangsraða framar. Það eru mál sem snúa að efnalitlu fólki á Íslandi. Það eru þau mál sem við viljum setja í forgangsröð.

Verkalýðshreyfingin, Öryrkjabandalagið, Landssamband eldri borgara eru að ræða sín í milli um tillögur til úrbóta fyrir hina lægst launuðu í þjóðfélaginu og menn hafa verið að vekja athygli á ýmsum stærðum af því tilefni. Einstaklingur sem þarf að reiða sig að öllu leyti á almannatryggingar, býr einn og fær heimilisuppbót, er með rúmlega 100 þús. kr. í tekjur, um 108 þús. kr. í tekjur og hann er skattlagður fyrir hluta þeirra tekna. Láglaunafólk, þeir sem minnst hafa eru með rúmlega 105 þús. kr. í mánaðarlaun. Það hefur verið bent á að einstaklingur sem er með minna en um 170 þús. kr. eigi erfitt með að framfleyta sér.

Atvinnulaus maður fær í atvinnuleysisbætur sennilega um 94 þús. kr. á mánuði hverjum. Samkvæmt frumvarpi sem við ræddum fyrir fáeinum dögum við 1. umr. um breytingar á atvinnuleysistryggingum er gert ráð fyrir því sem ríkisstjórnin kallar talsverða hækkun á atvinnuleysisbótum. Hverju skyldi sú hækkun nema? Hún nemur um tveimur þúsundum kr. fyrir þann sem minnst hefur. Það er að vísu talað um meiri hækkanir til tiltekinna hópa, þeirra sem eru í millitekjum eða háum tekjum vegna þess að frumvarpið gengur út á að tekjutengja atvinnuleysisbæturnar að hluta til tímabundið. En fyrir þann sem er á lægstu bótunum, láglaunamanninn, láglaunakarlinn og láglaunakonuna er hækkunin tvö þúsund kr.

Þessi samtök hafa verið að benda á þróun ýmissa kjarastærða á Íslandi á undangengnum árum. Þau hafa bent á að skattleysismörkin eru núna um 80 þús. kr. á mánuði, tæplega þó, rétt rúmar 79 þús. kr. en væru 130 þús. kr. ef þau hefðu þróast í samræmi við launavísitölu frá árinu 1988. Ég segi, hæstv. forseti: Gagnvart því fólki sem er á lægstu laununum, sem býr við slík afarkjör að það getur ekki séð sér og sínum farborða, gagnvart því fólki biður ríkisstjórnin ekki um nein afbrigði hér í þinginu. Nei, hún neitar meira að segja að taka mál sem tengjast hagsmunum þessara hópa á dagskrá. Hvers vegna? Vegna þess að hún er staðráðin í því að koma í gegnum þingið og gera að landslögum ýmiss konar gæluverkefni og pólitísk áhugamál sem ganga þvert á réttindi starfsmanna og þeirra sem þjónustu viðkomandi stofnana eiga að njóta en þjóna pólitískum hugmyndum og duttlungum ríkisstjórnarinnar.

Ég nefni hér mál sem er á dagskrá í dag, ÁTVR hf. Út á hvað gengur það mál? Það gengur fyrst og fremst út á að skerða réttindi starfsfólks, taka af því lífeyrisréttindin eða draga úr þeim rétti og veikja hann og skerða síðan og veikja margvísleg starfsréttindi sem þetta fólk býr við. (PHB: Hvers virði eru þau?) Þau eru mikils virði. Hvers virði eru starfsréttindin? spyr hv. þm. Pétur H. Blöndal. Það er nú þannig að sumt er hægt að meta til fjár og annað ekki. Við metum lífeyrisréttinn til fjár, við metum fæðingarorlofsréttinn til fjár og veikindaréttinn metum við til fjár. En hvers virði er það að fá að vera manneskja og verða ekki háður duttlungum forstjóravaldsins sem verið er að innleiða með þeim frumvörpum sem ríkisstjórnin er að reyna að knýja í gegnum þingið? Og hún er svo staðráðin í þessu að hún neitar að taka á dagskrá mál sem tengjast hagsmunum almenns launafólks á Íslandi og þeirra sem búa við lökust kjörin, öryrkjanna og atvinnulauss fólks. Þessi mál skulu hafa forgang.

Hún tekur hins vegar eitt mál sem snýr að sköttunum sérstaklega og það er það mál sem við höfum hér til umfjöllunar. Við höfum í sjálfu sér ekki lagst gegn þessu frumvarpi, við höfum viljað sýna fyrirtækjum skilning, ekki síst þeim sem eru í útflutningsgreinum þannig að þau geti að nýju komið undir sig fótunum eftir erfiða daga vegna stöðu krónunnar og ruðningsáhrifa af völdum stóriðjuframkvæmda ríkisstjórnarinnar á undanförnum missirum og árum. Við höfum verið því fylgjandi og við höfum talað máli þeirra. En við erum ekki tilbúin að taka því að þeir hópar í þjóðfélaginu sem lakast standa séu virtir að vettugi og brýnum hagsmunamálum þeirra sé vikið til hliðar, því að það er ríkisstjórnin að gera.

Við höfum nefnt ýmis atriði sem við höfum talið nauðsynlegt að taka á núna. Við höfum lagt til að ákvörðun um að falla frá hátekjuskatti verði endurskoðuð, skrúfuð til baka. Við höfum lagt fram í þinginu þingmál um breytingar á fjármagnstekjuskatti. Þeir sem hafa tekjur af fjármagni sínu búa við mun betri kost en hinir sem afla tekna með launavinnu. Tekjuskatturinn er í kringum 37% en skattur á fjármagn er um 10%. Í þingmáli sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs stóð sameinaður að og var lagt fram hér á þinginu í upphafi þings og hefur ekki fengist afgreitt lögðum við fram tillögu um að stíga fyrstu skrefin í þá átt að samræma skatta þeirra sem afla sér viðurværis og lifa sumir hverjir munaðarlífi af tekjum af fjármagni, að jafna þeirra stöðu og hinna sem afla tekna með launavinnu. Við leggjum til að smásparandinn, hinn almenni borgari sem leggur fé til hliðar verði ekki skattlagður, honum verði hlíft vegna þess að við leggjum til skattleysismörk inni í fjármagnstekjukerfinu þannig að 120 þús. kr. fjármagnstekjur á ári hjá einstaklingnum verði undanþegnar skatti.

Mig langar, hæstv. forseti, til að lesa örfáar línur úr greinargerð með því frumvarpi því þær varpa skýru ljósi á stöðuna í þessum málum. En þær eru svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Lagt er til að sett verði skattleysismörk við 120 þús. kr. fjármagnstekjur á ári hjá einstaklingum. Gera má ráð fyrir að við það verði rúm 90% einstaklinga og ríflega 70% hjóna sem nú greiða fjármagnstekjuskatt undanþegin skattinum.“

Ég hvet menn til að hugleiða þetta. Með því að undanskilja það sem við köllum smásparandann, með því að setja 120 þús. kr. skattleysismörk á ári mundi það gerast að rúm 90% einstaklinga og ríflega 70% hjóna sem nú greiða fjármagnstekjuskatt yrðu undanþegin skattinum. Hér er því um að ræða tekjujafnandi aðgerð.

En hverjir eru hinir? Ég les áfram, með leyfi forseta:

„Þótt hlutfallið sé hátt er hér fyrst og fremst um að ræða smásparnað almennings sem hefur yfirleitt sínar tekjur af launavinnu.

Á undanförnum árum hefur fjölgað þeim einstaklingum hér á landi sem afla töluverðs hluta heildartekna sinna með tekjum af fjármagni, sem þeir greiða aðeins 10% skatt af. Um leið breikkar bilið milli þeirra tekjuhæstu og tekjulægstu. Ætla má að fjármagnstekjur séu meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu. Þessir aðilar greiða lægra hlutfall af tekjum sínum til samfélagsins en launafólk gerir.“

Aftur vek ég athygli á því sem hér er sagt að það megi ætla að fjármagnstekjur séu meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar hafa tekjurnar í þjóðfélaginu. Þetta eru milljóna- og milljarðamæringarnir. Þeir liggja í bómull núverandi ríkisstjórnar sem neitar að taka á dagskrá mál sem lúta að tekjujöfnun í þjóðfélaginu. Ég held það hljóti að verða öllum umhugsunarefni að fylgjast með því sem er að koma núna frá Öryrkjabandalaginu, frá Landssambandi eldri borgara og frá verkalýðshreyfingunni sem hinn 1. maí, í gær, á baráttudegi verkalýðsins hvetur til þess að gripið verði til ráðstafana sem jafna kjörin á Íslandi.

Ég veit ekki hve margir hafa lesið greinar sem birst hafa eftir Hörpu Njálsdóttur, m.a. í Morgunblaðinu hinn 22. apríl, fyrir fáeinum dögum. Upphafsorð greinar Hörpu sem ber yfirskriftina: „Kjör hinna lægst launuðu eru óviðunandi!“ er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Á síðustu vikum hafa kjör hinna lægst launuðu verið til umræðu. Niðurstöður rannsókna sýna að hópar ófaglærðra á vinnumarkaði bera svo lítið úr býtum fyrir 100% starf að launin duga ekki fyrir lágmarksframfærslu. Hér er að stórum hluta um kvennastéttir að ræða, konur sem vinna hjá ríki og sveitarfélögum við umönnunarstörf, m.a. við uppeldi og menntun barna í leikskólum, umönnun aldraðra og sjúkra á hjúkrunarheimilum og skólaliða við gæslu og stuðning í grunnskólum. Allt eru þetta störf sem krefjast mikilla mannkosta og færni í samskiptum og umönnun — störf sem eru einnig líkamlega erfið og slítandi.“

Ég ætla ekki að vitna frekar að sinni í grein Hörpu Njálsdóttur sem er afar umhugsunarverð. Hvers vegna erum við að ræða þetta í tengslum við þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar? Vegna þess að við viljum breiða umræðu um skattamálin í landinu. Við erum að fjalla um hvernig eigi að dreifa byrðunum. Hverjir eigi að axla skatta og hverjir eigi að vera undanþegnir sköttum. Hverjir eigi síðan að njóta ávaxtanna af því sem samfélagið leggur sameiginlega fram. Þetta neitar ríkisstjórnin að gera og ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann vakti athygli á að stjórnarsinnar sem hafa komið hér í stólinn og kvartað yfir því að stjórnarandstaðan vilji breiða umræðu um skattamálin, hafa síðan sjálfir farið út og suður og um víðan völl.

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér ekki hljóðs til að gagnrýna þetta frumvarp sérstaklega. Ég kvaddi mér ekki hljóðs til þess. Ég vildi að vísu minna á að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur í öllum sínum málflutningi og málatilbúnaði á undanförnum mánuðum, missirum og árum lagt áherslu á að standa vörð um stöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja því við höfum talið að stöðu þeirra væri ógnað, eins og reyndin hefur orðið. Þau hafa verið að flýja af landi brott hvert á fætur öðru, sérstaklega í hátækniiðnaði. Við vitum líka að víða hafa sjávarútvegsfyrirtæki átt í erfiðleikum. Á þetta höfum við lagt áherslu hér við umræðuna.

En fyrst og fremst, hæstv. forseti, erum við að vekja athygli á forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sem neitar að tala um kjör hinna lægstlaunuðu, sem neitar að tala um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu og leiðir til að draga úr henni. Það er forgangsmál okkar. Það er forgangsmál Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.