Tekjuskattur

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 16:17:47 (8132)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[16:17]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Forseti. Það er rétt að ég hef ekki tök á því að mæta á þessa ráðstefnu á morgun sem hv. þingmaður vitnaði til. En það vill nú þannig til að ríkisstjórnin er með nefnd starfandi á sínum vegum til þess að fara yfir málefni aldraðra og formaður þeirrar nefndar er Ásmundur Stefánsson. Hann starfar einnig sem ríkissáttasemjari en hann er auðvitað ekki formaður þessarar nefndar í því hlutverki. Hann leiðir þetta starf eins og málum er háttað nú og ég álít að þar sem ég get ekki verið á fundinum sé það góð ráðstöfun að Ásmundur verði þar og taki þátt í panelumræðunum. Hann veit best hvernig málin standa.

Varðandi vilja minn til þess að ræða kjör hinna lægst launuðu held ég að hv. þm. Ögmundur Jónasson í hlutverki sínu sem formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja ætti að leita upplýsinga hjá fulltrúum þess félags sem fer með þá lægst launuðu innan sambandsins sem starfa hjá ríkinu og athuga hvort þeir hafi haft eitthvað undan því að kvarta að ræða við mig persónulega eða starfsmenn mína um mál þeirra síðustu vikurnar.