Tekjuskattur

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 16:30:51 (8140)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Tekjuskattur.

793. mál
[16:30]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta hefur auðvitað með það að gera hvaða viðmiðanir við notum varðandi vaxtabæturnar. Það hefur auðvitað með það að gera hver vaxtakjörin eru og loks hefur það líka með það að gera hver aðgangurinn er að lánunum. Það eru þær miklu breytingar í þessu sem við erum að sjá og höfum verið að sjá að undanförnu.

Það eru þess vegna fleiri þættir en þeir sem hv. þingmaður nefndi sem koma til skoðunar. Ég efast ekkert um að hann hefur talið fram fyrir marga og ég efast ekkert um að hann hafi fyllt rétt inn í reiknivél ríkisskattstjóra og að reiknivélin reikni rétt. Hins vegar eru framteljendur fleiri en þessir 600 sem hv. þingmaður nefndi. Þeir búa við misjafnar aðstæður. Þar sem um er að ræða að viðmiðið er hrein eign, og það sjáum við ekki fyrr en síðar, þá gæti verið um það að ræða að þeir sem búa við það að eignarverð þeirra hefur hækkað hafi jafnframt hækkað lántökur sínar á móti til þess að þetta bil skerðist ekki og til þess að fá vaxtabæturnar áfram.

Hvernig þetta kemur svo út í heildinni getur maður ekki sagt fyrir um núna, ekki fyrr en álagningunni er lokið. En það er einmitt þetta, að geta aukið lántökurnar þegar eignarverðið hækkar og jafnvel ráðstafað þeim fjármunum í allt aðra hluti en húsnæðisöflunina og geta samt sem áður fengið vaxtabætur áfram sem ég tel m.a. ástæðu fyrir því að við þurfum að fara ofan í vaxtabótakerfið. Því að ég efast stórlega um aðilar sem geta gert slíka hluti þurfi á vaxtabótum að halda. Ég hef hins vegar kannski meiri (Forseti hringir.) tilfinningu fyrir því að þeir aðilar sem hv. þingmaður var að telja fram fyrir þyrftu á þeim að halda í framtíðinni.