Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 16:41:49 (8146)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[16:41]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sannfærð um að við í efnahags- og viðskiptanefnd hefðum ekkert haft á móti því að gera breytingartillögu sem fæli í sér nýtt efnisatriði og það hefði getað orðið um það víðtæk sátt í nefndinni að gera slíka breytingu við frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar sem þar liggur fyrir. Mér hefði bara þótt það eðlilegur framgangsmáti á málinu úr því að svona frumvarp, sem er í grundvallaratriðum efnislega samhljóða, þótt þarna sé eitthvert nýtt efnisatriði á ferðinni, og liggur fyrir og hefur verið rætt í þinginu og er komið til nefndar, hefði verið afgreitt út úr nefndinni en ekki að koma hér með nýtt frumvarp þó að í því sé þetta sérstaka ákvæði um bifreiðar í eigu björgunarsveita. En ég geri ráð fyrir að um það geti náðst góð sátt í efnahags- og viðskiptanefnd og vona að ráðherra vilji fylgja mér að málum í því að við náum líka fram í nefndinni lækkun á vörugjaldi á (Forseti hringir.) bensíni til þess að takast á við hækkandi vísitölur.