Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 17:09:52 (8156)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[17:09]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að fagna því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram þótt seint sé eins og mörg mál hæstv. ríkisstjórnar. Markmiðið með þessari tímabundnu lækkun er að bregðast við óhagstæðri þróun á heimsmarkaðsverði á dísilolíu. En það sem vantar auðvitað er það sem hv. síðasti ræðumaður nefndi, að ekki skuli vera gengið skrefinu lengra og einnig látin koma til framkvæmda tímabundin lækkun á bensíni sem, eins og hér kom fram hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hefur verulega þýðingu til að slá á verðbólguna. Er raunar óskiljanlegt af hverju hæstv. ríkisstjórn fer ekki þá leið sem við í Samfylkingunni tölum fyrir og þingmál var lagt fram og hefur legið fyrir þinginu síðan í haust.

Við sjáum fram á mikla verðbólgu, kannski 8–9% verðbólgu á næstu þremur mánuðum. Þetta er auðvitað mikilvægt innlegg inn í þá stöðu, sérstaklega þegar við getur blasað að kjarasamningar verði í uppnámi næsta haust. Þá er mikilvægt að ríkisstjórnin grípi þegar til aðgerða sem hafi þau áhrif að koma í veg fyrir að hér geti allt farið í bál og brand í haust.

Ég sé ekki hæstv. ráðherra hér í salnum, frú forseti, veit reyndar ekki hvort hann hlýðir á mál mitt, en ég er með nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra svo það væri gott að vita hvort hann heyrir hér til mín. (Gripið fram í.) Ráðherrann er rétt ókominn en það er ástæða til þess að spyrja hann út í bensínið og einnig út í það frumvarp sem hann mælti fyrir sem hann hafði nú ekki mjög mörg orð um.

Það er nú óþægilegt að hafa ekki ráðherrann hér í salnum.

(Forseti (DrH): Forseti vill gera tilraun til að ná ráðherra inn í salinn.)

Hér kemur fram í frumvarpinu að þetta hafi áhrif á tekjur ríkissjóðs og er um að ræða 250 millj. En það er alveg ljóst að þetta eru tekjur sem renna til vegamála og því er spurningin hvort sú breyting sem hér er lögð til hafi einhver áhrif á fjármagn til Vegagerðarinnar.

Ég spyr sérstaklega vegna þess að það hafa komið þó nokkuð margar umsagnir við það frumvarp sem við þingmenn í Samfylkingunni höfum lagt fram þar sem við leggjum til tímabundna lækkun bæði á bensíni og olíu. Það kom fram hjá Vegagerðinni að hún taldi að það frumvarp um tímabundna lækkun á olíunni gæti haft áhrif til lækkunar og tekjutaps hjá Vegagerðinni. Það er nefnt hér, með leyfi forseta, í þessari umsögn um okkar frumvarp í Samfylkingunni:

„Áætlað tekjutap Vegagerðarinnar vegna framlengingar tímabundinnar lækkunar er um 140 millj. kr. miðað við áætlaða sölutölur Vegagerðarinnar.“

Ráðherra kom ekkert inn á það þannig að ástæða er til þess að spyrja hæstv. ráðherra út í það. Vel má vera að staðan sé sú að það hafa verið misvísandi upplýsingar t.d. í fjárlögum um tekjuforsendur og við hvaða lítrafjölda áætlun um tekjur af olíunni er miðuð. Margir telja að hér sé um að ræða hærri tekjur og fleiri lítra af olíu en gert var ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga. Mig minnir að það hafi verið 81 millj. lítra. En það megi gera ráð fyrir meira magni. Það getur vel verið að hæstv. ráðherra geri ráð fyrir því í útreikningum sínum.

Þegar hæstv. ráðherra hefur verið spurður um lækkun á bensíngjaldinu þá hefur mér aldrei fundist ráðherrann taka neitt afdráttarlaust fyrir að þetta gæti komið til, að lækka líka bensínið. Ég spyr ráðherrann um það, það mundi auðvelda okkur alla meðferð máls í efnahags- og viðskiptanefnd, hvort ráðherrann ljái því máls fyrir sitt leyti. Málið er hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Ég spyr hvort hann ljái því máls fyrir sitt leyti að það verði líka ráðist í að lækka tímabundin gjöld af bensíni.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór nokkuð yfir það frumvarp sem hefur legið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og hvernig hún sæi fyrir sér hugsanlegar breytingar á þessu frumvarpi að því er varðar einnig tímabundna lækkun á bensíni og fór yfir verðlagsáhrifin af því sem hljóta að skipta máli í stöðunni. Ef um er að ræða 6 kr. tímabundna lækkun plús virðisaukaskatt eða tæplega 7,5 kr. á bensíni til áramóta í sex mánuði þá hefur það veruleg verðlagsáhrif eins og hér var nefnt eða 0,4%. Það er ástæða til að segja líka að því er það varðar að hér er farið mjög vægt í sakirnar. Við skulum segja að það yrði niðurstaðan að við færum þá leið að lækkunin yrði tæplega 7,5 kr. með virðisaukaskatti — þá erum við bara að miða við meðalverð eins og það var fyrstu fjóra mánuði þessa árs eða um 114 kr. en lítrinn er núna 126 kr. rúmar. Ef við ætluðum að ná því alveg til baka þyrftum við að fara í tímabundna lækkun í sex mánuði upp á sennilega 12,50 þannig að hér er ekki gengið hart fram í því að lækka tímabundna gjaldið af bensíni þegar talað er um 7,5 kr. Lítrinn núna er orðin 131,20 ef salan er með fullri þjónustu.

Segjum svo að þessi leið yrði farin, 7,5 kr., þá erum við að tala um tekjutap í bensíni sem nemur um 600 millj. kr. en samkvæmt þeim útreikningum sem ég hef látið gera kemur í ljós að þrátt fyrir 600 millj. kr. tekjutap ríkissjóðs stæðu samt eftir 500 millj. í ríkiskassanum miðað við þá hækkun sem orðið hefur á bensíni. Það er því alls ekki verið að fara fram á að skila öllu til baka til bifreiðaeigenda heldur aðeins að hluta til.

Ég held að það þurfi líka að ganga lengra í olíunni heldur en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi og ég held að það þurfi líka að fara í samsvarandi lækkun á henni. Þá værum við að tala um 375 millj. til viðbótar eða 975 millj. kr. sem mundi ekki einu sinni taka til baka allt það sem ríkissjóður hefur fengið í kassann vegna þessarar miklu hækkunar á eldsneytisverði. Þetta skiptir máli, ekki bara sem innlegg í það að slá á verðbólguna með lækkun vísitölunnar heldur hefur það líka veruleg áhrif til að bæta kjör fjölskyldna vegna þess að eldsneytiskostnaður á meðalfjölskyldubíl hækkar yfir eitt ár um 40 þús. kr. eða um 5.300 kr. á mánuði miðað við eldsneytisverðið eins og það er núna. Til að borga þessa viðbót í eldsneytiskostnað þarf að auka vinnutekjur heimilanna um 64 þús. kr. yfir árið. Hvernig sem á málið er litið er þetta hagstætt fyrir heimilin í landinu og þetta er mjög mikið innlegg í það að lækka hér verðbólguna.

Það eru ekki svo litlar tekjur sem ríkissjóður hefur af umferðinni, bílaumferð og eldsneytinu, þegar við erum að tala um 47 milljarða kr. Það var áætlað fyrir áramótin þegar við vorum að ræða frumvarp okkar í Samfylkingunni í tengslum við fjárlögin að tekjur ríkissjóðs af bílum og umferðinni væru áætlaðar um 40 milljarðar kr. á sl. ári. En nú nokkrum mánuðum seinna er þetta áætlað 47 milljarðar kr. Ég er viss um að það er ekkert land í heiminum sem hefur eins miklar tekjur af sköttum af umferðinni og ríkissjóður í þessu landi. Það er því auðvitað að verða tímabært að á þessu máli sé tekið og hefði átt að gera fyrr eins og við í Samfylkingunni höfum lagt til að gert yrði. Þess vegna legg ég þá spurningu fyrir hæstv. ráðherra hvort það komi til greina af hans hálfu að efnahags- og viðskiptanefnd skoði þennan þátt mála og bæti tímabundinni lækkun á bensíninu inn í það frumvarp sem ráðherrann mælir fyrir.

Við erum að tala um aukinn kostnað neytenda bara á einu ári. Miðað við eldsneytisverð nú erum við að tala um 4,6 milljarða í aukinn kostnað fyrir neytendur. Það er ekkert smátt. Ef sú leið yrði farin sem við tölum fyrir með tímabundna lækkun til áramóta upp á 7,5 kr. með virðisaukaskatti þá mundi það draga úr útgjöldum heimilanna vegna bensínhækkana um 750 millj. kr. Það munar verulega um það fyrir heimilin í landinu og er auðvitað mjög þungur baggi á heimilunum í landinu að fá yfir sig þessa bensínhækkun sem hækkar skuldir heimilanna og afborganir eins og hér hefur verið farið yfir.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að um það mál sem við höfum haft til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd og ekki hefur fengist rætt hafa komið margar umsagnir. Þær eru að verulegu leyti jákvæðar. Það er t.d. athyglisvert að Viðskiptaráð Íslands vill ganga lengra en frumvarp okkar í Samfylkingunni því það leggur til að frumvarpið nái fram að ganga. Þá erum við að ræða um 5 kr. sem þarf auðvitað að breyta miðað við þær breytingar sem orðið hafa síðan frumvarpið var lagt fram. En Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga með þeirri breytingu að sú lækkun sem við lögðum til verði ekki tímabundin heldur varanleg.

Skeljungur vekur athygli á því að eigendur bensínbíla greiða um 15% hærri opinber gjöld en eigendur dísilbíla að teknu tilliti til orkugildis. Maður spyr sig t.d. út frá þeirri röksemd af hverju sé ástæða til að skilja bensínið eftir og lækka ekki tímabundið gjald á því eins og lagt er til varðandi dísilolíuna.

Umferðarráð er með umsögn þar sem vísað er í umsagnir ýmissa aðildarfélaga þess. Það er t.d. frá fulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar þar sem segir, með leyfi forseta: „Félagið ítrekar mikilvægi þess að af lækkun bensín- og olíugjalds verði að það verði skoðað í lok tímabilsins hvort ekki sé ástæða til að framlengja lækkunina ef heimsmarkaðsverð er áfram svipað og það er í dag.“ Í frumvarpi okkar gerðum við ráð fyrir að lækkunin tæki til fimm mánaða tímabils og yrði þá endurskoðuð sem mig minnir að hafi átt að vera í marsmánuði eða aprílmánuði.

Olíudreifing segir, með leyfi forseta: „Ekki er að sjá neina annmarka á því að þetta gjald verði lækkað en þægilegra væri að miða breytinguna við áramót.“ Bændasamtök Íslands segja, með leyfi forseta: „Án þess að leggja mat á útfærsluna tekur stjórn BÍ undir nauðsyn þess að hamla gegn verðhækkun eldsneytis sem hefur ekki síst áhrif á flutningskostnað á landsbyggðinni.“ Það var einmitt það sem hv. síðasti ræðumaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fór vel yfir að það skiptir verulegu máli fyrir landsbyggðina að farið sé í þetta mál með þeim hætti sem við leggjum til.

Það er vakin athygli á því hjá Félagi ísl. bifreiðaeigenda að um 60% af útsöluverði bensíns og dísilolíu séu skattar í ríkissjóð og síðan segir, með leyfi forseta: „Á þessu ári stefnir í að tekjur ríkissjóðs af bílum í umferð fari yfir 40 millj. kr. sem er Íslandsmet í bílasköttum yfir eitt ár.“ Nú eru þessir 40 milljarðar sem var áætlað komnir í 47 milljarða. Og áfram segir, með leyfi forseta: „Þrátt fyrir verðlækkun á bílaeldsneyti síðustu vikurnar samanborið við ofurverð í haust þá er eldsneytisverð um þessar mundir mjög íþyngjandi og óvenjuhátt til íslenskra bifreiðaeigenda. Gengi íslensku krónunnar hefur haldið verðinu niðri hér á markaði en nú síðast í morgun var tilkynnt um hækkun á eldsneyti á grundvelli versnandi stöðu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.“ Þetta er skrifað 25. nóvember og hefur staðan verulega versnað síðan það var skrifað.

Síðan er það Landssamband sendibílstjóra sem fagnar mjög því frumvarpi sem við mæltum fyrir, sömuleiðis Neytendasamtökin og Strætó bs. Umsagnir lágu því fyrir þegar staðan var ekki eins slæm og hún er í dag um það að flestir umsagnaraðilar mæla með því að það verði farið í tímabundna lækkun á bensíni og olíu.

Ég hef lagt fram tvær fyrirspurnir til hæstv. ráðherra sem ég vænti að hann svari sem mun þá auðvelda okkur meðferð málsins í efnahags- og viðskiptanefnd. Í lokin tek ég undir með hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að það mun ekki standa á okkur að afgreiða þetta mál fljótt og vel úr efnahags- og viðskiptanefnd, ekki síst ef það verður vilji fyrir því af hendi hæstv. ráðherra og meiri hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd að lækka líka tímabundið til áramóta gjöld á bensíni. Ég held að þetta sé kannski eitt af þeim þarfari málum sem nauðsynlegt er að afgreiða fyrir þinglok.