Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 18:07:39 (8159)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[18:07]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði aðeins bara til að spyrja hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, formann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs út í það hvort Vinstri hreyfingin – grænt framboð geti ekki lýst því yfir í ræðustóli á Alþingi eins og formaður Samfylkingarinnar gerði hér áðan eða, ef svo má að orði komast boðið ríkisstjórninni upp í dans eða boðið upp á sáttavinnu til að lækka tímabundið álögur á eldsneyti eins og við erum hér að ræða um og m.a. hv. þingmaður ræddi um, sem er orðið of hátt, að bjóða ríkisstjórninni upp á nokkurs konar þinglega sátt ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð er á sömu línu og við í Samfylkingunni. Og bjóða þeim jafnframt upp á að þetta verði keyrt í gegnum þingið hér sem allra fyrst þannig að þetta fari þá þannig að vísitölumælingar mæli lægra eldsneytisverð og hafi áhrif á verðbólguna og allt það sem við höfum verið að ræða.

Virðulegi forseti. Spurning mín til hv. formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er einföld: Er Vinstri hreyfingin – grænt framboð tilbúin að lýsa yfir stuðningi við þær leiðir sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, þ.e. að lækka tímabundið álögur á bensín og olíu meira en hér er boðað, þessar fjórar krónur, til þess að koma til móts við og lækka álögur bæði fyrirtækja og fjölskyldna í landinu og hafa þannig áhrif á vísitöluþáttinn?