Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 18:09:12 (8160)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[18:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að fara að segja nei við svona hjartnæmu tilboði um að menn takist hér í hendur og sættist sáttum og grípi til slíkra ráðstafana þannig að ef uppi væru aðstæður af því tagi hér í þinginu að eitthvert samkomulag gæti orðið um þetta sem þá lið í væntanlega einhverjum almennari og víðtækari aðgerðum til þess að halda aftur af verðbólgu og lækka tilkostnað þá ætla ég ekki fyrir okkar hönd að fara að neita slíku fyrir fram, við erum að sjálfsögðu tilbúin til að skoða það.

Ég tók eftir því að hv. þingmaður sagði „tímabundnar ráðstafanir“. Ég færði hér talsverð rök fyrir því að ég hefði mjög litla trú á því að hið háa eldsneytisverð sem við stöndum núna frammi fyrir yrði tímabundið ástand og er reyndar ekkert endilega viss um að það væri æskilegt fyrir þróun þessara mála svona almennt séð á heimsvísu ef við förum út í þá sálma. Ég tel að menn þurfi þá líka að velta því fyrir sér: Eru það þær ráðstafanir sem eru nærtækastar og skilvirkastar til að takast á við t.d. hækkandi verðlag, það verðbólguskot sem við stöndum frammi fyrir og kæmu þær út með sanngjörnustum hætti? Mundum við bera niður þarna? Ég veit það ekki, ég mundi vilja fara yfir allt sviðið í þeim efnum. Ef við erum með fjármuni til ráðstöfunar handa á milli, ákveðum að setja tiltekna fjármuni í einhverjar slíkar aðgerðir, mér yrði þá alveg eins á að grípa tillögu Atla Gíslasonar um það að við afléttum þeirri skerðingu vaxtabóta sem ríkisstjórnin hefur innleitt í reynd með því að hækka ekki viðmiðunarmörk þar. Kæmi það ekki hópi til góða sem væri í sárri þörf fyrir það? Jú, ég held það.

Að sjálfsögðu er rétt og skylt að fara yfir allar slíkar hugmyndir og ég útiloka ekkert í þeim efnum að tímabundnar ráðstafanir geti átt rétt á sér ef þær eru skilvirkar og koma niður með sanngjörnum hætti gagnvart þeim sem eru í þörf fyrir slíkt. Og auðvitað er mikilvægt verkefni að halda aftur af verðhækkunum og verðbólgu, því neita ég ekki. Ég minni bara á að það eru fleiri hliðar á málinu en þær sem ég hef gert hér að umtalsefni og ég hef reyndar leiðrétt (Forseti hringir.) mistúlkun á afstöðu okkar í þessum efnum, þær sem snúa að umhverfismálum.