Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 18:11:25 (8161)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[18:11]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel afar mikilvægt sem hér kemur fram. En fulltrúar eða formenn tveggja stjórnarandstöðuflokkanna, þ.e. hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar, Steingrímur J. Sigfússon hv. þm., formaður Vinstri grænna og ég hygg að sama sé með Frjálslynda flokkinn, og síðan hefur það komið opinberlega fram í blöðum að a.m.k. nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið talsmenn fyrir þeirri leið sem formaður Samfylkingarinnar var að bjóða hér upp á áðan, þ.e. lækkun á álögum á bensín og olíu á Íslandi. Þetta viljum við líka gera út af verðbólgu og annars vegar tímabundið fram í tímann vegna þess að við skulum vona að þetta háa verð verði ekki viðvarandi eða haldi áfram að hækka, sem margt bendir þó til að verði, m.a. vegna stríðsrekstrar Bandaríkjamanna í Írak og þess brambolts sem þeir eru að hóta Írönum.

Nú er hæstv. fjármálaráðherra því búinn að fá hér í dag heldur betur stuðning, stuðningsyfirlýsingu við þessa leið og nú er það spurning hvort hæstv. fjármálaráðherra boðar þetta á næsta ríkisstjórnarfundi og segir hvað hér hefur komið fram og að þá verði í efnahags- og viðskiptanefnd unnið af fulltrúum allra flokka í þeirri nefnd og komið með frumvarp hérna inn, komið með tillögur hér inn um tímabundnar lækkanir til að hafa áhrif á verðbólguna annars vegar, sýna lit gagnvart 1. nóvember sem tifar inn og nálgast gagnvart kjarasamningum og koma þannig til móts við heimilin í landinu.

Virðulegi forseti. Í lokin ætla ég aðeins að segja, eins og ég hef sagt hér áður: Hækkunin á bensíni um 30 kr. sem við sjáum nú gefur ríkissjóði 6 kr. í virðisaukaskattstekjur af hverjum einasta lítra eða tæpar 500 kr. af hverri fyllingu á meðalfólksbíl. Virðisaukaskattstekjur af þessu háa eldsneytisverði streyma inn í ríkissjóð um þessar mundir og spurningin er því: Vill hæstv. fjármálaráðherra gefa eitthvað eftir til (Forseti hringir.) þegnanna eða ætlar hann að halda áfram að (Forseti hringir.) hlaða svo undir ríkissjóð eins og raun ber vitni?