Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 18:13:41 (8162)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[18:13]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Er ekki bara best að hafa þessa hluti algerlega skýra? Okkar áhersla er sú að við höfum ekki sett fram kröfur um almenna flata lækkun á þessum gjöldum. Við höfnum hins vegar ekki að skoða slíkt, eins og ég sagði hér áðan, ef það er liður í einhverjum samræmdum og samstilltum aðgerðum til þess að halda aftur af verðlagshækkunum. Við höfum minnt á umhverfishlið málsins sem að sjálfsögðu má ekki gleyma.

Ég mundi að mörgu leyti kjósa frekar aðgerðir sem beindust fyrst og fremst að því að gera kaup og rekstur á sparneytnum fjölskyldubíl hagstæðari. Ég tel ekki sérstaka ástæðu t.d. til þess að lækka gjöld á þeim sem telja sig það vel setta að þeir geti keyrt margra milljóna króna mjög eyðslufrekan bíl eins og margir gera. Vissulega geta sumir fært fyrir því rök að það komi þeim vel að hafa slík tæki og okkur verður þá gjarnan hugsað til landsbyggðarmanna sem þurfa að aka á vondum vegum o.s.frv. og við þekkjum þá umræðu. En það væri hægt að hugsa sér að með frekari stýringu í þá átt að gera innkaup og rekstur á hagkvæmum og sparneytnum fjölskyldubílum ódýrari þyrfti síður að hafa áhyggjur af restinni. Það væri umhverfisvæn stefna sem við vildum gjarnan stuðla að því að móta, samhliða því að grípa til þeirra ráðstafana sem ég nefndi, eins og að efla almenningssamgöngur og setja kraft í að reyna að auka notkun annarra vistvænni orkugjafa. Ég held því að það eigi bara að skoða þessi mál í því samhengi sem þau eru og einn þátturinn sem þarna er er verðlagsþátturinn, verðlagsáhrifin og þær kostnaðarhækkanir sem þetta leiðir til gagnvart hverjum það er, gagnvart almenningi og rekstri fjölskyldubílsins, gagnvart flutningskostnaði og vöruverði og lífskjörum á landsbyggðinni o.s.frv. Þetta þurfa menn þá bara allt að ræða í réttu samhengi.