Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 18:36:52 (8164)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[18:36]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir jákvæð viðbrögð við efnisatriðum frumvarpsins. Hér hafa verið afskaplega áhugaverðar umræður um orkumálin, alla vega heildstætt, sem út af fyrir sig er ágætt. Skoðanir ræðumanna hafa verið mjög mismunandi, greinilega eftir því hvar í flokki þeir standa.

Hins vegar hefur aðeins örlað á misskilningi hjá einstaka ræðumanni, en þetta frumvarp felur í sér að framlengja þá mismunun sem er á verði bensíns og dísilolíu til að ýta undir notkun á dísilolíu sem er talin umhverfisvænni en bensínið. Ástæðan er sú að það óvenjulega ástand hefur skapast að undanförnu að dísilolía og bensín hafa nánast verið á sama verði.

Það hafa hins vegar verið gerðar miklar breytingar á eldsneytissölumálum hjá okkur á undanförnum árum. Í fyrsta lagi þegar hlutur ríkisins var gerður að fastri tölu og síðan þegar nýtt kerfi var tekið upp fyrir tæpu ári síðan. Það var beinlínis gert til að auðvelda hinum almenna bíleiganda að nýta sér dísilolíuna. Vonandi að það verði okkur í hag og skili sér umhverfislega á næstunni auk þess sem það mun væntanlega verða ódýrara fyrir þjóðarbúið ef ástandið verður áfram eins og það oftast hefur verið.

Hins vegar hafði breytingin, þegar bensíngjaldinu og olíugjaldinu var breytt í fasta upphæð gríðarlega mikil áhrif á verðlagið. Hlutföllin á milli innkaups og kostnaðarverðs olíufélaganna og hluta ríkisins hafa breyst algerlega eins og komið hefur fram í útreikningum hv. þm. Péturs Blöndals og birt hefur verið í Morgunblaðinu. Hlutur ríkisins í meðalútsöluverðinu hefur farið úr 60% niður í 40%. Þannig að það er ekki hægt að tala um að ríkið hafi aukið skattlagningu sína af eldsneyti á undanförnum árum. Þvert á móti hafa hlutföllin þar breyst hinu opinbera í óhag.

Þess vegna kemur hin gríðarlega mikla áhersla Samfylkingarinnar á lækkað eldsneytisverð á óvart. Út af fyrir sig má hafa skilning á því að menn vilji bregðast við tímabundnu háu eldsneyti. En þegar maður horfir á breytingarnar í þessu samhengi, þá kemur þessi mikla áhersla talsvert á óvart. Sérstaklega þegar maður horfir á afstöðu Samfylkingarinnar í skattamálum þar sem hún hefur haft miklar áhyggjur af þensluáhrifum þess að lækka tekjuskatt. En lækkun á álagningu hins opinbera, eða lækkun á hlut ríkisins í eldsneytisverðinu mundi auðvitað hafa sömu efnahagslegu áhrifin.

Það mundi út af fyrir sig horfa öðruvísi við ef við værum að gera kerfisbreytingu. Þá gæti ég alveg hugsað mér að við mundum haga skattlagningu okkar á annan hátt. En ég held ekki að það sé tími til þess núna að huga að slíkum hlutum. Okkur mun eflaust gefast tóm til þess síðar. En við þurfum líka að huga að því hvaða breytingar það eru sem eiga sér stað úti í heimi og hvernig við ætlum að bregðast við þeim. Þessi afgerandi afstaða Samfylkingarinnar, að lækka tímabundið, ég er hvorki viss um að hún sé tímabær né endilega skynsamlegasta afstaðan að taka ef við þurfum að horfast í augu við að eldsneytisverð sé að hækka varanlega, hvort þetta séu þá hin réttu viðbrögð til að hafa við, ef horft er til lengri tíma notkunar og lengri tíma verðlagningar á innfluttu jarðefnaeldsneyti.

Síðan er áhugi Samfylkingarinnar á að nota álagningu ríkisins, eða hlut ríkisins í eldsneytisverðinu, lækka það til að hafa áhrif á verðbólguna eða á vísitöluna, þetta er auðvitað aðferð sem hefur verið notuð áður og þess vegna kannski ekki neitt óeðlilegt að menn velti því fyrir sér. En mér finnst Samfylkingin vera ansi snögg upp á lagið að komast að þeirri niðurstöðu að núna sé nákvæmlega tíminn til að beita slíkum aðferðum til að ná þessum árangri sem þó er kannski ekki nægjanlega vel skilgreindur.

Ég velti því fyrir mér ef þörf væri á að fara í einhverjar slíkar aðgerðir, menn væru með einhverja ákveðna fjármuni til að gera slíkt, — eins og kom fram hjá hv. þm. Kristjáni Möller sem sagði að nú væri svigrúm til að lækka, en málflutningur Samfylkingarinnar hefur nú ekki alltaf verið þannig í vetur — hvort við vildum þá ekki frekar lækka eitthvað annað, og þá kannski sérstaklega í ljósi þess hvernig þróunin er á heimsmarkaði á verði á jarðefnaeldsneyti, ef við horfum á þetta til lengri tíma. Það væru einhverjir aðrir hlutir sem mundu þá vera til lengri tíma skynsamlegir fyrir okkur og mundu þá hjálpa okkur jafnmikið og ef við teldum okkur þurfa að fara út í einhverjar svona aðgerðir vegna vísitölunnar.

Ég fagna því reyndar að þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var spurður beint af hv. þm. Kristjáni Möller um afstöðu hans til þessara tillagna Samfylkingarinnar, þá spurði hann nákvæmlega þessara spurninga. Hann gekkst ekki beint inn á tillögu Samfylkingarinnar um þetta heldur greinilega með öllum fyrirvörum um að hægt væri að skoða annað í stöðunni.

En ég hef hins vegar sagt að við þurfum að skoða þetta heildstætt og út frá öðrum þáttum í hagkerfinu og meta þá stöðu en ekki bara einstaka vörutegund eins og ég hef nefnt í þessu samhengi.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lagði hins vegar mjög mikla áherslu á það í ræðu sinni að Vinstri grænir væru ekki að óska eftir lægra verði á eldsneyti, það væri ekki stefna þeirra. Taldi mig hafa snúið út úr fyrir hv. þm. Jóni Bjarnasyni hér fyrir nokkru í umræðum í þinginu þar sem mér skildist á hv. þingmanni að hann væri að óska eftir að eldsneytisverðið lækkaði og væri þá talsmaður eina græningjaflokks í heimi sem væri að óska eftir slíku. Það var ekki með vilja gert að snúa út fyrir hv. þingmanni en ég held að það sé kannski skiljanlegt að ég hafi misskilið hann þegar hann var að tala um jöfnun á flutningskostnaði vegna kostnaðar af eldsneyti, því að í því mundi að sjálfsögðu felast ákveðin niðurgreiðsla og þá væri verið að skekkja verðmyndunina og undir ákveðnum kringumstæðum væri þá verið að nota meira af eldsneyti en þá væri réttlætanlegt verðsins vegna. Það getur falist í slíkum jöfnunarkerfum.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var aðeins í dómsdagsspárham hvað þetta varðar og vonandi hafa þær spár verið ástæðulausar, en það er auðvitað ýmislegt sem er að gerast í þessum efnum. Hann minntist á „Putin okkar“ eins og hann orðaði það — ég átta mig ekki alveg á í hvaða skilningi hann var orðinn „okkar“ — og að hann ætlaði sér að selja olíu og gas frá Rússlandi til annarra landa en til Evrópu. Það er rétt að hann hefur gert samning við Kínverja um það en það var einmitt eitt af því sem hv. þingmaður hafði áhyggjur af, þ.e. að Kínverjar færu að nota of mikið jarðefnaeldsneyti en þeir munu væntanlega fá það frá Rússlandi þannig að það er ástæða til að hafa áhyggjur af því.

En það var annað sem hv. þingmaður nefndi, það var að hér væri ekkert að gerast og hefði ekkert verið að gerast. Ég veit ekki betur en að alla síðustu öld hafi Íslendingar verið að vinna í því að virkja sjálfbærar orkulindir. Hvort sem það voru fallvötn eða jarðvarmi eða sú áhersla sem hefur verið á undanförnum árum á vetnið þá held ég að við höfum lagt verulega mikið til þessara mála hér hjá okkur miðað við okkar stærð og við höfum hvorki meira né minna en fengið verðlaun fyrir framlag okkar til vetnismálanna.

Eins og ég sagði fengu efnisatriði frumvarpsins mjög jákvæðar undirtektir og ég fékk ákveðnar spurningar sem ég vildi reyna að svara. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði um áhrif á vegagerð. Ég tel ekki ástæðu til að ætla að þetta muni hafa áhrif á magn vegaframkvæmda á árinu. Hún spurði hvort ekki mætti lækka bensínverð líka. Þá vísa ég til þess sem ég sagði í upphafi að frumvarpið er flutt til þess að hafa mismun á verði á dísilolíu og bensíni og þar af leiðandi fellur það ekki að markmiðum frumvarpsins að bensínið verði lækkað líka. Það er önnur umræða sem ég tel að við þurfum þá að skoða heildstætt bæði út frá eldsneytisforsendum og efnahagsforsendum ef til kemur en ég held að það sé ekki orðið tímabært.

Hv. þm. Kristján Möller spurði um þau atriði er lúta að björgunarsveitunum, hvort ekki væri betra að þær fengju endurgreidda reikningana. Ég held að sú aðferð sem hér er lögð til sé betri. Hins vegar er sú hugmynd sem hann kom með um staðsetningarkubba eitthvað sem væri áhugavert að skoða ef hægt væri að gera einhvers konar tilraun með það á björgunarsveitarbílunum án mikils tilkostnaðar.

Frú forseti. Ég þakka fyrir jákvæðar undirtektir og áhugaverðar umræður sem hafa virkilega skýrt línurnar í þessum efnum um hvað menn vilja gera. Samfylkingin vill klárlega lækka verð á bensíni alveg óháð öðrum þáttum að því er virðist. Vinstri grænir vilja fara mjög umhverfisvænar leiðir í þessu og svo sýnist mér að við fjrálshyggjumenn, eins og ég og hv. þm. Pétur Blöndal, séum meira hugsi í þessum efnum og viljum horfa bæði á heildstætt umhverfissamhengi og heildstætt efnahagssamhengi þegar ákvarðanir í þessum efnum eru teknar en þó auðvitað alltaf með það í huga að við viljum gjarnan lækka álögurnar á fólkið í landinu.