Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 18:54:39 (8167)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[18:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki sammála því að flutningskostnaðinn og jöfnun hans eigi að setja inn í þetta samhengi. Ég held að þessir flutningar spretti af þörf og þar eiga menn ekki val. Þetta er ósköp einfaldlega það sem er að ræða: Eiga þeir sem háðastir eru hinum háa flutningskostnaði og finna tilfinnanlegast fyrir honum, einkum í fjarlægustu byggðum landsins, að þurfa að taka hann á sig að fullu og þær miklu hækkanir sem orðið hafa á honum undanfarin ár? Þær stafa af ýmsum ástæðum og bætir auðvitað ekki úr skák á meðan ástandið er eins og það er að það eru engir valkostir, það eru engar strandsiglingar og menn eru dæmdir og ofurseldir til að fá sínar vörur til sín og senda sína framleiðslu frá sér í gegnum þær flutningaleiðir á landi sem í boði eru. Það er ekki eitthvað sem menn geta bara tekið ákvörðun um hvort þeir geri eða geri ekki. Fólkið sem býr í þeim byggðum sem verður að fá vöruna til sín eða koma framleiðslunni frá sér á ekkert val. Þess vegna er ekki hægt að stilla þessu upp með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerir.