Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 18:56:12 (8169)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[18:56]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. fjármálaráðherra sagði að afstaða Samfylkingarinnar í þessu máli kæmi á óvart. Hæstv. ráðherra þarf alls ekkert að koma það á óvart. Hvað erum við í Samfylkingunni að horfa til? Við erum að horfa til þess að ef bensínverð verður lækkað eins og við höfum lagt til, um 6 kr. plús vask, hefur það þau áhrif á vísitöluna að hún lækkar um 0,4%. Þetta hefur líka þau áhrif að útgjöld heimilanna vegna bensínnotkunar á þessum sex mánuðum sem við erum að leggja til lækka um 750 milljónir eða um 40 þús. kr. á ári á þessu tímabili á hvern heimilisbíl.

Hæstv. ráðherra ber þetta saman við það að við viljum fresta skattalækkunum og telur greinilega að það sé einhver misvísun í okkar málflutningi. Það er bara fjarri öllu lagi. Hæstv. ráðherra segir að þetta hafi sömu efnahagslegu áhrifin. Ja, ég er hjartanlega ósammála því vegna þess að við erum að tala hér um miklu lægri fjárhæð en skattalækkanirnar kosta fyrir utan það að þessi leið skilar sér miklu betur til heimilanna og jafnar en skattalækkanirnar þannig að það er engin misvísun í þessu.

Hæstv. ráðherra nefndi þá einhverjar aðrar aðgerðir í staðinn. Hvað er ráðherrann með í huga? Ég minni á það að árið 2002 fór ríkisstjórnin í nákvæmlega sömu aðgerð og við erum að leggja til með þeirri röksemd að áhrif hækkunar á bensín væru umtalsverð og gætu stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninga í hættu. Það gæti vissulega haft þau áhrif í haust ef ekkert er brugðist við. Hvað er það sem hæstv. ráðherra á við þegar hann talar um aðrar aðgerðir?

Hæstv. ráðherra segir að það sé verið að flytja þetta frumvarp til að viðhalda þeim mismun sem er á dísilolíunni og bensíni. Það er hægt að flytja sambærilega krónutölu að því er varðar dísilolíuna, 6 kr. plús vask, og (Forseti hringir.) þá viðhöldum við áfram sama mismun og hæstv. ráðherra er að kalla eftir.