Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Þriðjudaginn 02. maí 2006, kl. 19:02:11 (8173)


132. löggjafarþing — 113. fundur,  2. maí 2006.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[19:02]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir það fyrsta vegna skilgreiningar hæstv. fjármálaráðherra á þingmönnum sem félagshyggjumenn, jafnaðarmenn eða frjálshyggjumenn, eins og hann nefndi sig og hv. þm. Pétur H. Blöndal, þá er það rétt að þeir eru frjálshyggjumenn. En miðað við það sem við erum að ræða hérna eru þeir líka miklir skattheimtumenn og ekkert smáræði hvað þeir eru miklir skattheimtumenn. Það kemur fram í því sem við höfum verið að ræða hér í dag.

Virðulegur forseti. Í annan stað vil ég segja að mér skilst að meðan ég hélt ræðu hér áðan hafi bensínlítrinn hækkað um tvær krónur, úr 126 kr. í 128 kr. Má ég aðeins líka halda því til haga að væri þessi framlenging ekki samþykkt hér, þ.e. þessi lækkun á olíugjaldinu, um þessar 4 kr. plús vask þá værum við með olíuverð og bensínverð í sömu krónutölu nánast. Hvar er þá hinn fjárhagslegi ávinningur sem átti að vera, sem m.a. hæstv. utanríkisráðherra Geir H. Haarde talar um, við það að taka upp hina sparneytnu dísilbíla? Staðreyndin er auðvitað sú að olíugjaldið er allt of hátt og ég er búinn að fara yfir hver var grunnurinn að því.

Ég vildi svo í þessu andsvari mínu segja það líka að ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. fjármálaráðherra gaf hér áðan, og segi nú menn að það geti ekki fæðst góðar hugmyndir hér úr ræðustól Alþingis, þar sem hann tók undir þá hugmynd sem ég setti fram um gervihnattakubbana í björgunarsveitarbílana. Ég þykist vita það að við hv. þm. Pétur H. Blöndal erum mjög áhugasamir um þetta verkefni og treysti ég því að hv. þingmaður, formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafi heyrt þetta jafn vel og ég hérna áðan og taki þetta til gaumgæfilegrar skoðunar í efnahags- og viðskiptanefnd hvort ekki sé ástæða til að byrja með að þróa þessa kubba í björgunarsveitarbílana, ef þeir eru ekki þegar komnir, og við förum að rukka olíugjald eða einhvers konar gjald fyrir eldsneyti í samræmi við það. Þá held ég að við værum mjög framarlega í því að (Forseti hringir.) fara að þróa þetta kerfi.