Umhverfismat áætlana

Fimmtudaginn 01. júní 2006, kl. 15:00:24 (8530)


132. löggjafarþing — 119. fundur,  1. júní 2006.

umhverfismat áætlana.

342. mál
[15:00]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um umhverfismat áætlana.

Eitt helsta markmið frumvarpsins er að stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða og kemur fram í nefndaráliti að nefndin telji rétt að minnast á muninn á annars vegar þessu frumvarpi og hins vegar mati á umhverfisáhrifum framkvæmda, samkvæmt gildandi lögum.

Annars vegar er um að ræða umhverfismat áætlana, en það tekur til almennra ákvarðana um meginstefnu svo sem skipulagsáætlana sveitarfélaga, samgönguáætlunar og landgræðsluáætlunar. Hins vegar er um að ræða umhverfismat framkvæmda sem kveðið er á um í lögum um mat á umhverfisáhrifum en undir það falla sérstakar ákvarðanir um einstakar framkvæmdir, sbr. 5.–7. gr. laganna og viðauka við lögin. Taka skal skýrt fram að það er hvorki ætlun löggjafans að stuðla að tvíverknaði, verði frumvarp þetta að lögum, né að flækja stjórnsýslu eða torvelda framkvæmdir. Þvert á móti vonast nefndin til að með því að hugað verði með skipulegum hætti að áhrifum framkvæmdar á umhverfið muni það leiða til þess að vinna og kostnaður verði minni á síðari stigum, þ.e. þegar nær dregur framkvæmd verks. Fyrst og fremst er með frumvarpinu stefnt að því að umhverfissjónarmið verði höfð til hliðsjónar eins snemma í ferlinu og mögulegt er.

Nefndin leggur til ákveðnar breytingar á frumvarpinu og eru þær tilgreindar á sérstöku þingskjali, nánar tiltekið þingskjali 1008, og eru þær fyrst og fremst tæknilegar sem miða að því að laga og bæta en ekki er um að ræða stórvægilegar efnislegar breytingar á frumvarpinu.