Breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 13:30:40 (8583)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði sifjaréttar.

279. mál
[13:30]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Ég vil, virðulegi forseti, fylgja þessu andsvari eftir með því að segja að við erum ekki að ljúka umfjöllun um þetta mál í eitt skipti fyrir öll. Vonandi verður áfram lifandi umræða um þau úrræði sem við eigum að lögum að hafa til að skipa þessum málum þannig að hagsmunir barnsins séu sem best tryggðir. Ég vek athygli á því að fjölmargir aðilar, eins og t.d. umboðsmaður barna, mæltu mjög eindregið gegn því að úrræðið rataði í lög. Það sama á við um dómara sem hafa áralanga reynslu af því að meðhöndla mál af þessu tagi, sérstaklega þeir dómarar sem hafa beitt sér fyrir sáttameðferð í málaflokknum.

Ég vék að því í fyrri ræðu minni að menn notuðu orð eins og réttarfarslegt slys um það að þessu úrræði yrði komið fyrir í lögunum. Mér finnst sá undirtónn í máli þeirra sem mæla fyrir þessu úrræði að verið sé að taka réttindi af foreldrum. Ég vara við því að menn skoði þessi mál um of með augum foreldra. Allir þeir sem hafa verið að fjalla um þessi mál gera það einungis út frá hagsmunum barnanna og þá skiptir einu hvort við ræðum við umboðsmann barna, dómara eða aðra sérfræðinga. Margir þeirra efast mjög um að það geti í einhverjum tilvikum verið hagsmunum barns fyrir bestu að dæma sameiginlega forsjá þegar ágreiningur er um að málum verði þannig skipað.

Við skulum ekki gleyma því sem ég sagði áðan. Við erum að tala um aðstöðu þar sem annað foreldri mótmælir því sérstaklega að forsjá sé sameiginleg en dómari fái þá úrræði til að skipa svo fyrir að hún verði sameiginleg. Hann er þá raunverulega að skikka foreldrana til að verða sammála um mikilvæg atriði varðandi barnið.