Öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 15:11:04 (8600)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum.

328. mál
[15:11]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum leynir á sér og er nefnilega nokkuð varhugavert að mörgu leyti. Hér er um að ræða hluta af þjóðréttarlegri skuldbindingu sem lýtur að verndun hugverkaréttinda. Klárlega og augljóslega er þörf á að vernda hugverkaréttindin og koma í veg fyrir hugverkastuld og hugverkaþjófnað o.s.frv. og slá aukinni skjaldborg um þau réttindi og finna því leiðir.

Hér segir að dómstólar hafi vald til að fyrirskipa tafarlausar og skilvirkar ráðstafanir til bráðabirgða til að koma í veg fyrir brot á hugverkarétti, og einkum til að koma í veg fyrir að vörur komist í umferð innan lögsögu aðildarríkjanna.

En kjarni málsins er sá að lagafrumvarpið, þetta frumvarp um öflun sönnunargagna vegna áætlaðra brota á hugverkaréttindum, gengur að minni hyggju allt of langt. Þetta mál gengur allt of langt og þess vegna skrifum við þingmenn Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd ekki undir nefndarálitið. Við styðjum þetta mál ekki og munum leggjast gegn því í atkvæðagreiðslu á þinginu. Það er ekki þjóðréttarleg skuldbinding að innleiða málið eins og það liggur fyrir, heldur gengur það töluvert lengra en skuldbindingar kveða á um. Þar gengur það allt of langt þar sem það veitir of víðtæka heimild til leitar hjá þeim sem hugsanlega væru grunaðir um hugverkabrot.

Að því leytinu er málið algjörlega fráleitt að minni hyggju, gengur allt of langt og miklu lengra og hérna á friðhelgi einkalífsins að sjálfsögðu að njóta vafans. Frumvarpið gengur of nærri friðhelgi einkalífsins og hagsmunum þess sem kallaður er gerðarþoli, þess sem leitað er hjá af því það er nægjanlegt að sá sem er gerðarbeiðandi, sá sem óskar eftir að leit sé gerð hjá einhverjum, geri það sennilegt fyrir dómi að brot hafi verið framið. Það er nóg fyrir einhvern sem grunar annan um hugverkastuld að gera það sennilegt fyrir dómi að brot hafi verið framið. Þá ryðst sýslumaður fram, í mörgum tilfellum með þann sem óskar eftir leitinni, þann sem hefur annan grunaðan um hugverkastuld, að honum viðstöddum.

Þetta mál gengur einfaldlega allt of langt. Hér er allt of freklega gengið gegn friðhelgi einkalífsins að það sé möguleiki að minni hyggju að styðja málið. Ég tel að gengið sé gegn stjórnarskrárvernduðum rétti gerðarþola til friðhelgi einkalífs. Málið gengur að því leyti allt of langt þótt markmiðið sé gott eins og með svo mörg önnur góð mál. Markmiðið er gott t.d. með því máli sem við ræðum hér á eftir, um tóbaksvarnir, þar sem forræðishyggjan ætlar allt um koll að keyra. Markmiðið er gott en leiðin er óþolandi af því að leiðin brýtur á friðhelgi einkalífsins. Friðhelgi einkalífsins og stjórnarskrárverndaður réttur hvers einstaklings til friðhelgi einkalífs á að njóta vafans.

Friðhelgi einkalífsins á að njóta vafans að minni hyggju og okkar í Samfylkingunni. Þess vegna þegar við fórum að vinna að þessu máli í nefndinni rann upp fyrir okkur það ljós að hér væri einfaldlega gengið allt of langt. Hér er verið að grípa til svo harkalegra ráðstafana til að ná fram annars að sjálfsögðu ágætu markmiði, en fyrr mætti aldeilis vera, að það er ekki líðandi. Það er ekki þolandi og málið mun ég ekki styðja.

Hér er einfaldlega um að ræða allt of víðtæka heimild til leitar hjá þeim sem grunaðir eru um að hafa framið hugverkastuld eða gerast brotlegir við lög um hugverkaréttindi, sérstaklega í því ljósi að þjóðréttarleg skuldbinding knýr ekki á um að svo langt sé gengið.

En til að útskýra þetta aðeins að lokum, af því við erum að fara nokkuð greitt í gegnum umræðuna, má geta þess, eins og segir í nefndarálitinu, að fram kom á fundum nefndarinnar að ekki hefðu verið nægilega virk úrræði, og undir það tek ég, fyrir rétthafa hugverkaréttinda til að bregðast við brotum og afla sönnunargagna um þau til að verja hagsmuni sína. Það er vissulega hægt að taka undir það og þarf að finna leiðir til að bæta þar úr. Þá væri þörf á úrræðum á einkaréttarlegum grunni til þess að bregðast við þar sem lögreglu væri varla kleift að bregðast nægilega fljótt við kærum. Því að auðvitað er um að ræða nokkuð sérstakan brotaflokk þar sem getur verið erfitt að bregðast nægilega hratt við þar sem um er að ræða hugverka- og tölvuglæpi hvers konar þar sem getur verið nokkuð fljótlegt að eyða sönnunargögnum með því að rústa tölvum eða þurrka minni þeirra einhvern veginn út. Allt er það uppi á borðinu og liggur fyrir. Markmiðið með ákvæðunum er sem sagt að stöðva ákveðna starfsemi og m.a. að tryggja að rétthafi að hugverkarétti geti tryggt sönnun gegn ætluðum brotum á hugverkarétti.

Þess vegna telur meiri hlutinn nauðsynlegt að virkja þetta úrræði, sem ég er að gagnrýna, til að tryggja hagsmunarétt að hugverkaréttindum með þessum hætti sérstaklega þar sem eðli hugverkaréttinda eða hugverkaþjófnaðar hvers konar er með þeim hætti að býsna auðvelt er að koma undan sönnunargögnum og miklu auðveldar en í mörgum öðrum flokkum og erfiðara að færa heim sönnur að broti með auðveldum og fljótvirkum hætti af því það er svo auðvelt og fljótlegt að eyða sönnunargögnunum.

En hér er einfaldlega gengið allt of langt. Hér er gengið allt of nærri friðhelgi einkalífsins og hagsmunum þess sem hugsanlega er grunaður, sérstaklega þar sem er nægjanlegt fyrir þann sem óskar eftir beiðninni, óskar eftir húsleitinni, óskar eftir leitinni hjá viðkomandi, að gera það sennilegt fyrir dómi að brot hafi verið framið. Það er nóg að gera það sennilegt. Það er nóg að færa fram þau rök sem duga til að dómstóll fallist á að leit verði gerð. Síðan er það sýslumanns að framkvæma leitina og oft að gerðarbeiðanda nærstöddum. Þetta finnst mér líka algjörlega óviðunandi. Ég sætti mig ekki við að svo freklega sé gengið, vil ég segja, gegn friðhelgi einkalífsins sem hér er kveðið á um. Sérstaklega þegar litið er til þess að nokkur málafjöldi liggur núna fyrir þinginu þar sem hægt er að færa rök fyrir því að mjög freklega og gróflega sé gengið á friðhelgi einstaklinganna.

Tóbaksvarnamálið sem ég nefndi áðan er ekkert annað en árás forræðishyggjunnar og stjórnlyndisins gegn frjálslyndi og friðhelgi hvers borgara í landinu. Þegar við bætast svona mál sem að mínu mati gera ekkert annað en ganga gróflega gegn friðhelgi einkalífsins og gegn þeim hagsmunum sem stjórnarskráin verndar hvern mann til að hafa, þá er algjörlega ómögulegt að mínu mati að sætta sig við það. Þó svo að við ræðum þessi mál sitt í hvoru lagi þá ræðum við hitt hér síðar í dag.

Þetta mál veitir allt of víðtæka heimild til leitar. Það kemur ekki að mínu mati til greina að samþykkja málið óbreytt, sérstaklega af því að gengið er lengra en þjóðréttarlegar skuldbindingar kveða á um sem menn fela sig oft á bak við í íslenskri löggjöf að hér sé um að ræða eitthvað EES-mál sem eða alþjóðlegar og þjóðréttarlegar skuldbindingar til að gera þetta og hitt, þó margt gott komi nú þaðan. Þá er hér einfaldlega gengið lengra en kveður á um í þjóðréttarlegum skuldbindingum vegna verndunar á hugverkaréttindum sem ég tek aftur undir að eru að sjálfsögðu nauðsynlegt að vernda og finna réttlætanlegar, ásættanlegar og sanngjarnar leiðir til að vernda hugverkaréttindi og gera yfirvöldum kleift að komast yfir og rannsaka brot á hugverkarétti og afla sönnunargagna sem duga til. Enginn efi er í mínum huga að það þarf að gera. Það þarf að búa svo um hnúta að hægt sé að koma upp um hugverkastuld.

Við vorum að ræða það í fyrirspurnatíma í gær. Þá var ég með fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra þar sem fram kom að það er metið svo að 5–8% af hagkerfi heimsins snúist um hugverkastuld og slíka glæpastarfsemi þar sem eru tölvuglæpir, ólöglegar fjölfaldanir á myndefni og geisladiskum og merkjavöru hvers konar. Því er um gífurlega mikið vandamál að ræða. Það er ekki nokkur spurning.

En það réttlætir hins vegar ekki að svo langt sé gengið á friðhelgi einkalífsins að mínu mati sem hér er lagt til. Það eru einfaldlega til mildari og sanngjarnari leiðir en sú sem hér er lögð til og það á að leita þeirra leiða. Við eigum að leyfa stjórnarskrárvernduðum rétti hvers einstaklings til friðhelgi einkalífs síns að njóta vafans gegn slíkri lagasetningu sem felur yfirvöldum mjög opna og víðtæka heimild til að ráðast að hverjum einstaklingi og gera leit hjá honum einungis út frá því að einhver hafi gert það sennilegt fyrir dómi að brot hafi verið framin. Hér er einfaldlega allt of langt gengið að mínu mati og þess vegna styð ég þetta mál ekki.