Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 18:16:49 (8633)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[18:16]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um frumvarp til laga um breyting á lögreglulögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

Eins og fram kemur á þingskjali 1242 hefur nefndin fengið til sín fjölmarga aðila við vinnslu málsins og jafnframt bárust fjölmargar umsagnir.

Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á umdæmaskipan lögreglu hér á landi og á verkaskiptingu milli einstakra sýslumannsembætta vegna endurskipulagningar löggæslu og varða þær bæði innra og ytra skipulag. Lagt er til að við embætti ríkislögreglustjóra starfi greiningardeild sem rannsaki landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og leggi mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Lögregluumdæmum verði fækkað úr 26 í 15 og þau stækkuð auk þess sem sérstakar rannsóknardeildir verði starfræktar við sjö embætti. Nýtt embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu taki við löggæsluverkefnum lögreglustjórans í Reykjavík og sýslumannanna í Hafnarfirði og Kópavogi.

Á fundum nefndarinnar kom fram að markmiðið með breytingunum væri að bæta og efla löggæslu í landinu og auka öryggi borgaranna. Þannig verða lögregluumdæmin færri og stærri en lögreglustöðvum verður ekki fækkað. Telur nefndin að stækkun embætta feli í sér mikla möguleika á sérhæfingu þar sem gert er ráð fyrir að löggæsla og meðferð ákæruvalds færist frá átta minnstu embættunum til þeirra stærri. Með stofnun nýs embættis á höfuðborgarsvæðinu verður unnt að stuðla að betri nýtingu mannafla, sérhæfingu og nýtingu sérþekkingar. Telur nefndin að með breytingunum muni rannsóknir sakamála verða markvissari. Þá kom fram að það er eitt markmiða frumvarpsins að auka sýnilega löggæslu. Með þeim breytingum sem felast í frumvarpinu verður unnt að halda úti sólarhringsvöktum sem bæta mun löggæslu í landinu og efla öryggi borgaranna.

Nefndin ræddi um hlutverk og heimildir greiningardeildar og lögreglurannsóknadeildar við embætti ríkislögreglustjóra. Ljóst er af upplýsingum þeim sem nefndinni voru veittar að frumvarpinu er ætlað að skjóta stoðum undir þá starfsemi lögreglu sem felst í því að greina hættu á alvarlegri glæpastarfsemi og er nú verkefni efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Slík greining þjónar tvennum tilgangi: annars vegar auðveldar hún lögreglu að upplýsa alvarleg afbrot, og hins vegar getur hún komið í veg fyrir að slík afbrot verði fullframin. Er þessi þáttur í störfum lögreglu ekki síst mikilvægur í ljósi þeirrar ógnar sem samfélaginu stafar af skipulagðri glæpastarfsemi svo sem fíkniefnasmygli, mansali og hryðjuverkum. Felst sérstaða slíkra brota m.a. í því að þau sæta sjaldnast almennri kæru. Í störfum nefndarinnar kom fram að slík forvarna- og greiningarvinna væri forsenda þess að hérlend yfirvöld gætu unnið með yfirvöldum í öðrum ríkjum að baráttu gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi. Þess vegna telur nefndin brýnt að skipulag lögreglu taki mið af þessum veruleika.

Í frumvarpinu er ekki aukið við rannsóknarheimildir lögreglu. — Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessu vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið um greiningardeildirnar í frumvarpinu, að ekki er aukið við rannsóknarheimildir lögreglu en um þær og greiningarstarf fer eftir lögum um meðferð opinberra mála. Nokkur umræða fór fram um það í nefndinni hvort þörf væri á að koma á lögbundnu eftirliti með rannsóknar- og greiningarstarfi lögreglunnar og þarf það í sjálfu sér ekki að koma á óvart í tengslum við umræðuna um greiningarstarfið en eins og segir í nefndarálitinu telur nefndin mikilvægt að umræða um frekari rannsóknarheimildir lögreglu fari ekki fram án þess að þörf fyrir slíkt eftirlit verði metin og tekið til skoðunar hvernig slíku eftirliti mætti koma við. Þar geta margar leiðir komið til greina, þeirra á meðal aðkoma sérstakrar þingnefndar. En ég vek athygli á því að hér er verið að fjalla um þann möguleika að lögreglan fái víðtækari rannsóknarheimildir en nú er og ég tel að engin ástæða sé til að útiloka þörfina fyrir slíkt. Sú umræða þarf að eiga sér stað að yfirveguðu máli og að teknu tilliti til hins nýja veruleika sem lögreglan starfar í í dag en frumvarpið fjallar ekki um þörfina fyrir slíkar auknar rannsóknarheimildir. Hins vegar er það samdóma álit nefndarmanna að fari slík umræða af stað ætti hún ekki að eiga sér stað án þess að jafnframt verði rætt um hvernig við munum þá útfæra eftirlit með eftirlitinu, ef svo má að orði komast. Þar kemur margt til greina eins og ég hef áður vikið að.

Það er enn fremur lagt til í frumvarpinu að ráðherra verði heimilt að ákveða að við einstök embætti lögreglustjóra starfi, undir eftirliti ríkislögreglustjóra, greiningardeildir til að leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Það er nauðsynlegt að unnt verði að stofna slíkar deildir við einstök embætti og þá sér í lagi þau sem eru í nálægð við alþjóðlega umferð um landið.

Nefndin ræddi töluvert á fundum sínum þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu á stöðu stjórnenda í lögreglunni og almennum hæfisskilyrðum til skipunar í embætti. Í frumvarpinu er lagt til að ríkislögreglustjóri, aðstoðarríkislögreglustjórar og lögreglustjórar skuli fullnægja sömu almennu hæfisskilyrðum og sýslumenn til skipunar í embætti. Um aðstoðarlögreglustjóra gilda sérstakar menntunar- og starfsreynslukröfur, en að öðru leyti sömu hæfisskilyrði og til skipunar í embætti lögreglustjóra.

Samkvæmt lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði skal staðgengill sýslumanns fullnægja hæfisskilyrðum til skipunar í sýslumannsembætti. Með vísan til þessa segir í greinargerð með frumvarpinu að með sama hætti skuli sá aðstoðarlögreglustjóri sem gegnir hlutverki staðgengils lögreglustjóra fullnægja hæfisskilyrðum til skipunar í embætti lögreglustjóra. Telur nefndin rétt að þessi áskilnaður komi skýrt fram í texta frumvarpsins og leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis.

Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að breyting á menntunarskilyrðum aðstoðarlögreglustjóra væri varhugaverð. Í því samhengi var einkum rætt um almennar starfsskyldur aðstoðarlögreglustjóra og hve mjög geti reynt á lögfræðilega menntun við úrlausn verkefna í því embætti, en samkvæmt núgildandi lögum er lögfræðimenntun skilyrði skipunar í embætti varalögreglustjóra. Þrátt fyrir að sjónarmið um gildi lögfræðimenntunar fyrir störf aðstoðarlögreglustjóra hafi átt mjög góðan hljómgrunn innan nefndarinnar er það engu að síður afstaða nefndarinnar að mikilvægt sé jafnframt að vel menntaðir og reyndir lögreglumenn geti sóst eftir æðstu stjórnunarstöðum innan lögreglunnar. Í störfum nefndarinnar kom fram að þessi leið hefði m.a. verið farin annars staðar á Norðurlöndum. Við nánari skoðun fékk nefndin ekki séð að efnisrök lægju að baki þeim greinarmun sem gerður er á embættum aðstoðarlögreglustjóra og aðstoðarríkislögreglustjóra í þessu tilliti þó að þess beri að geta að samkvæmt gildandi lögum er sá munur á þessum tveimur embættum að 30 ára aldursskilyrði er fyrir skipan í embætti vararíkislögreglustjóra, en af frumvarpinu leiðir hins vegar að það aldursskilyrði fellur brott. Eftir að hafa skoðað þessi atriði telur nefndin eðlilegt að gerðar verði sömu hæfiskröfur til skipunar í embætti aðstoðarríkislögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra og leggur því til breytingu á frumvarpinu þess efnis. Þetta felur í sér að rýmkaðir eru möguleikar lögreglumanna til að sækjast eftir embætti vararíkislögreglustjóra. Síðan leiðir það af sjálfu sér að sá aðstoðarríkislögreglustjóri sem gegnir starfi staðgengils ríkislögreglustjóra mun í samræmi við það sem ég hef áður sagt þurfa að fullnægja hæfisskilyrðum til skipunar í embætti ríkislögreglustjóra.

Aðrar breytingar sem nefndin leggur til tel ég að skýri sig sjálfar og vísa ég til nefndarálitsins um þær.

Í lokin leggur nefndin til breytingar á gildistökuákvæðinu og hún eins og aðrar breytingartillögur ættu að skýra sig sjálfar fyrir utan það sem ég hef nú þegar gert grein fyrir.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem ég hef getið fyrr og finna má á þingskjali 1243.

Hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson, Björgvin G. Sigurðsson, Sigurjón Þórðarson og Guðrún Ögmundsdóttir skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara.