Lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 18:25:59 (8634)


132. löggjafarþing — 120. fundur,  2. júní 2006.

lögreglulög og framkvæmdarvald ríkisins í héraði.

520. mál
[18:25]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt, við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í allsherjarnefnd skrifuðum undir álitið með fyrirvara um stuðning við hina svokölluðu greiningardeild sem nokkuð hefur verið deilt um og fóru fram töluverðar umræður við 1. umr. um málið og í allsherjarnefnd um greiningardeildina almennt, þörfina fyrir hana, umfang hennar og heimildir þær sem hún hefði og er að finna í lögum nú, en boðað er að síðar komi frumvarp þar sem kveður á um frekari heimildir til greiningardeildarinnar og ræddum við heilmikið um það sem kannski mestu máli skiptir í sambandi við slíka leyniþjónustustarfsemi eða öryggislögreglu, sem er eftirlit með starfseminni. Eins var heilmikið rætt um hvort mikil þörf væri á að halda úti leyniþjónustustarfsemi til að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins o.s.frv.

Það sem upp úr stendur er að við sem skrifum undir þetta með fyrirvara teljum að mikil þörf sé á að sett verði á stofn eftirlit með slíkri starfsemi nú þegar. Það er í rauninni boðað í frumvarpinu að það komi til umræðu þegar frekari heimildir koma fram til handa greiningardeildinni eða leyniþjónustunni, öryggislögreglunni eða hvað við köllum þetta. Fordæmin sem við kölluðum eftir frá öðrum Norðurlöndum eru með þeim hætti að það er alltaf til staðar einhvers konar lýðræðislegt eftirlitsapparat, lýðræðislegt eftirlit með slíkri starfsemi, hvort sem við köllum það leyniþjónustustarfsemi, greiningarstarfsemi eða öryggiseftirlitshlutverk einhvers konar, það skiptir ekki öllu máli en menn eru eitthvað viðkvæmir fyrir því að kalla þetta leyniþjónustustarfsemi. En hún þarf að sjálfsögðu án nokkurs efa að eiga sér stað innan lögreglunnar og líklega er langbest að koma henni þannig fyrir að hún sé í sérstakri deild, eins og hér er lagt til, greiningardeild.

Um leið og stofnsett er slík sérstök greiningardeild utan um þessa starfsemi, þessa sérstöku starfsemi sem án efa þarf að halda úti og eiga sér stað og jafnvel kannski að efla með einhverjum hætti, þá er algjört grundvallaratriði að til komi formlegt lýðræðislegt eftirlit, eins og til að mynda var rætt í allsherjarnefnd en í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Nokkur umræða fór fram um það hvort þörf væri á því að koma á lögbundnu eftirliti með rannsóknar- og greiningarstarfi lögreglunnar. Telur nefndin mikilvægt að umræða um frekari rannsóknarheimildir lögreglu fari ekki fram án þess að þörf fyrir slíkt eftirlit verði metin og tekið til skoðunar hvernig slíku eftirliti mætti koma við. Margar leiðir geta komið til greina í því sambandi, þeirra á meðal aðkoma sérstakrar þingnefndar.“

Það er sá háttur sem oft er hafður á, að sérstök eiðbundin þingnefnd hafi það hlutverk að hafa eftirlit með starfsemi leyniþjónustu, öryggislögreglu og greiningardeilda og þeirri starfsemi sem þar er stunduð og kannski er það langfarsælasta leiðin, enda ekki einboðið hvernig slíku eftirliti skuli háttað. Við sem undir þetta ritum af hálfu stjórnarandstöðunnar leggjum mikla áherslu á að það fari fram hið fyrsta og tillaga fylgi þá boðuðu frumvarpi um frekari heimildir til handa greiningardeildinni um lýðræðislegt eftirlit, að um leið og frekari rannsóknarheimildir til lögreglu er skoðuð og þörfin á henni metin sé það skoðað sérstaklega hvernig slíku lýðræðislegu, lögbundnu eftirliti með rannsóknar- og greiningarstarfinu sé best háttað. Umræðan um þetta er nokkuð uppi núna þessa dagana í samhengi og sambandi við uppljóstranir um hleranir stjórnvalda fyrr á tímum og starfsemi sem því tengist, símhlerunum á að því er virðist pólitískum andstæðingum, fjölmiðlum og verkalýðsleiðtogum þess tíma og varpar það ágætu ljósi á hvað það er mikilvægt að eftirliti með slíkri starfsemi sé vel og haganlega fyrir komið þannig að það blandist engum blandist hugur um að þar sé allt með felldu og það sé eðlilegt og sanngjarnt eftirlit með slíkri starfsemi.

Á þetta leggjum við mjög ríka áherslu, að um leið og greiningardeildin er stofnuð, leyniþjónustan, komi til eftirlitsstofnun með starfseminni. Það skiptir mjög miklu máli, sérstaklega þar sem hvers konar eftirlit með borgurunum færist verulega í vöxt í einni og annarri mynd. Það eru myndavélar út um borg og bý sem gegna bæði öryggishlutverki í umferðinni og því að vakta staði sem mannlífið er með þeim hætti að þar á sér oft stað einhvers konar glæpastarfsemi eða mikið skemmtanalíf er staðsett á. Því er nauðsynlegt að um leið og eftirlit með borgurunum eykst fari fram gagnger umræða um hvernig lýðræðislegu eftirliti með njósnastarfseminni og eftirlitsiðnaðinum öllum á vegum stjórnvalda sé háttað því að eftirlitsiðnaður stjórnvalda úti um víða veröld er að færast í vöxt. Og sérstaklega í kjölfar þeirrar hryðjuverkaógnar sem uppi er og hefur átt sér stað í heiminum á síðustu árum hefur eftirlitsiðnaðurinn vaðið uppi á kostnað friðhelgi einkalífs hins almenna borgara. Um það er engum blöðum að fletta og þar hafa menn gengið lengst í Bandaríkjunum og töluvert langt í Bretlandi líka.

Þó er engin ástæða til að efast um að þörf sé á að bregðast hratt og jafnvel harkalega við hryðjuverkaógnunum með ýmsum hætti og ekki kannski síst með hvers konar upplýsingaöflun, leynilegri upplýsingaöflun til að geta brugðist við ógninni fyrir fram og jafnvel afstýrt henni með einhverjum hætti. Það ber ekki að draga það í efa og ég dreg heldur ekkert í efa að fram þarf að fara upplýst umræða um hvað þessi ógn er mikil og að hve miklu leyti við þurfum að bregðast við henni. Erum við kannski mjög vanbúin því að fylgjast með einhvers konar hryðjuverkaógn og því sem hér er lagt til til að leggja mat á hryðjuverkastarfsemi auk annarrar skipulagðrar glæpastarfsemi? Það ber ekki að ræða það af neinni léttúð eða draga neitt úr því að heilmikil þörf geti verið á því. En það er algjört grundvallaratriði að þá sé á fót komið lögbundnu lýðræðislegu eftirliti með þeirri starfsemi. Það er algjört grundvallaratriði og gæti afstýrt því sem oft hefur miður farið í slíkri leyniþjónustu og upplýsingaöflunarstarfi stjórnvalda hér og þar. Því er hið lýðræðislega eftirlit algjört grundvallaratriði. Við það setjum við fyrirvarann um stuðning við málið sem annars inniheldur margt sem til framfara horfir og er ágætt og við styðjum heils hugar, en skrifum undir álitið með fyrirvara um greiningardeildina þar sem því miður er ekki lögð fram tillaga um hvernig hinu lýðræðislega lögbundna eftirliti með leyniþjónustustarfseminni verði háttað.