Hlutafélög

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 22:33:26 (8674)


132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

hlutafélög.

404. mál
[22:33]
Hlusta

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum (opinber hlutafélög), frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Nefndarálitið er að finna á þskj. 1086. Í því kemur fram hvaða gestir heimsóttu nefndina og hvaða umsagnir bárust nefndinni. Einnig er rætt um tilgang frumvarpsins og þess getið að samhliða þessu máli ræddi nefndin annað frumvarp sem fjallar um opinber hlutafélög, 436. mál, og tók að einhverju leyti tillit til efnisatriða þess máls við umfjöllun málsins.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar. Ég mun geta tveggja þeirra en vísa að öðru leyti í nefndarálitið.

Í fyrsta lagi er lagt til, í staðinn fyrir að segja að hlutafélagið sé í eigu opinberra aðila, bætist við: Beint eða óbeint. Þá er tekið mið af því að t.d. Landsvirkjun, sem er í eigu tveggja sveitarfélaga og ríkisins alfarið, getur stofnað hlutafélag með einhverju sveitarfélagi. Þá er það óbeint alfarið í eigu opinberra aðila og fellur því undir lögin.

Í tengslum við umfjöllun um aðalfundi, þar sem fulltrúar fjölmiðla mega sækja aðalfund, fór fram ítarleg umræða um hvort ekki væri eðlilegt að kjörnir fulltrúar frá eigendum yrði einnig heimilt að sitja þá fundi. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu er lagt til að kjörnum fulltrúum eigenda, þingmönnum ef ríkið er eigandi og viðkomandi sveitarstjórnarmönnum ef sveitarfélag er eigandi, sé heimilt að sækja aðalfundi með rétt til að bera fram skriflegar fyrirspurnir. Meiri hlutinn telur að með því að leyfa skriflegar fyrirspurnir á aðalfundum verði auðveldara en ella að afla upplýsinga um opinber hlutafélög, sem áður voru opinberar stofnanir og lutu þá sem slík m.a. upplýsingalögum og stjórnsýslulögum. Með þessu nálgast menn þau lög. Að öðru leyti vísa ég til nefndarálitsins hvað þetta varðar.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, Dagný Jónsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir og Ásta Möller.