Hlutafélög

Föstudaginn 02. júní 2006, kl. 23:06:39 (8680)


132. löggjafarþing — 121. fundur,  2. júní 2006.

hlutafélög.

404. mál
[23:06]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er í tilefni af orðum hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem ég kem hér upp aftur en ég ætla ekki að draga þessa umræðu á langinn. Ég gerði grein fyrir því í ræðu minni áðan hver afstaða mín væri til þessa máls eins og ég hafði gert í efnahags- og viðskiptanefnd. Hins vegar háttaði þannig til þegar málið var afgreitt úr nefndinni að ég stend ekki að málinu.

Ég er sátt við það og mun styðja frumvarpið að öðru leyti en því er varðar sérstaklega þessu einu grein. Ég taldi mig gera þokkalega grein fyrir því áðan að mér finnst í sjálfu sér ekki eðlilegt að við séum að tala um kvóta í þessu samhengi heldur að það sé tryggt að hlutur kvenna og karla sé eins jafn og hægt er miðað við oddatölur stjórnarmanna. Þá erum við að tala um að í fimm manna stjórn væru ýmist tvær eða þrjár konur o.s.frv.

Mér finnst einhvern veginn að kvótaumræða eigi ekki rétt á sér þegar fólk er annars vegar. Við getum talað um mjólkurkvóta o.s.frv. Meginmálið er að þetta sé eins jafnt og hægt er að koma því við miðað við oddatölu stjórnarmanna. Áskorun hv. þingmanns mun ég ekki taka vegna þess að ég boðaði jafnframt að ég mundi leggja fram breytingartillögu við frumvarpið sem sneri einungis að þessu eina ákvæði.