132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

Veiðimálastofnun.

612. mál
[00:06]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef kannski algjörlega misskilið tilgang þessa frumvarps. Ég taldi að þetta væri endurskoðun á lögum um Veiðimálastofnun. (DrH: Nei, nei.) Hv. þm. Drífa Hjartardóttir kallar fram í að svo sé ekki. Hvers vegna ekki? Vegna þess að þetta er enn eitt dæmið um ágreininginn á milli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Framsóknarflokkurinn heldur dauðahaldi í þessa stofnun eins og svo margar aðrar og Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur talað með allt öðrum hætti í gegnum árin, t.d. þegar ég var með þeim í ríkisstjórn og kom vitinu fyrir þá í nokkrum efnum varðandi þetta, verður auðvitað að láta kúgast í þessu máli.

En ég ætla að benda hæstv. forseta og formanni landbúnaðarnefndar á að í dag var samþykkt frumvarp sem var skylt þessu en það varðaði sjávarútveg, þ.e. hafrannsóknir. Þar var fjárveitingum varið til þess að ýta undir sjálfstætt starfandi vísindamenn. (Gripið fram í.) Þetta frumvarp gengur í þveröfuga átt.

Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að skoða mjög vel nokkrar rannsóknastofnanir á vegum ríkisins. Sumt af þeim rannsóknum, sérstaklega þjónustu og eftirliti sem þau inna af höndum, er betur komið á markaði. Annað sem tengist skólamálum og ýmsu er betur komið hjá ýmsum háskólastofnunum. Ég hef t.d. margoft sagt að ég tel að Veiðimálastofnun og stór hluti af starfi hennar sé einstaklega vel fallið til að sameina landbúnaðarháskóla eins og þeim sem er á Hólum. Ég er þeirrar skoðunar. Hvers vegna í ósköpunum á ríkisstofnun að keppa við sjálfstætt lítið fyrirtæki um mælingar á laxi og eftirlit með laxastofnum í ám? Hvers vegna?

Slík ríkisstofnun á enn síður að niðurgreiða þá samkeppni af opinberu fé. Þetta er ekki annað en brot af því sem að minnsta kosti er hægt að kalla anda samkeppnislaga. Þetta er náttúrulega andstætt stefnu Sjálfstæðisflokksins. (Forseti hringir.) Ég skil ekkert í formanni landbúnaðarnefndar að taka þátt í þessu. (Forseti hringir.)