Útreikningur vaxtabóta

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 09:02:40 (8741)


132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

útreikningur vaxtabóta.

[09:02]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er nauðsynlegt áður en þessu þingi lýkur að reyna að ná samstöðu um það í þinginu að breyta grunni í útreikningi vegna vaxtabóta. Ástæða þess er mikil hækkun á fasteignamati sem hækkar um 35% milli álagningaráranna 2005 og 2006 með þeim afleiðingum að fólk mun tapa tugum þúsunda og í sumum tilvikum 200–300 þús. kr. í vaxtabætur eða sæta 100% skerðingu á vaxtabótum milli ára án þess að nokkuð hafi breyst í aðstæðum eða kjörum fólks annað en hækkun á fasteignamati íbúða þess frá síðustu útgreiðslu vaxtabóta í ágúst á síðasta ári.

Ég tók þetta mál upp í efnahags- og viðskiptanefnd í gærmorgun og aftur í hádeginu í gær á fundi nefndarinnar án þess að samkomulag næðist um málið en þó var góður vilji þar til þess að skoða málið. Ég hef látið reikna út nokkur dæmi um hvaða áhrif þessi hækkun á fasteignamati hefur á útgreiddar vaxtabætur í ágúst og hér er á ferðinni gífurleg skerðing á vaxtabótum og þar með kjörum fólks sem því mun birtast nú í ágústmánuði að óbreyttu. Í þeim dæmum sem ég hef látið reikna má t.d. sjá að einstætt foreldri sem er með 3 millj. kr. í tekjur og á eign upp á tæpar 5 milljónir en er með skuldir upp á 15 milljónir fékk um 218 þúsund í vaxtabætur á síðasta ári en mun ekki fá eina krónu í vaxtabætur á þessu ári. Sambærileg dæmi má sjá t.d. um einstaklinga en þar liggur dæmið þannig, miðað við sambærilegar tekjur og eignir, að viðkomandi fékk 169 þúsund í vaxtabætur á síðasta ári en fær ekkert nú.

Ég vil leita eftir því hvort hægt sé að ná samstöðu um það milli þingflokkanna áður en þingi lýkur að breyta tekjuskattslögunum þannig að sú gífurlega skerðing á vaxtabótum sem er yfirvofandi hjá þúsundum heimila í landinu nái ekki fram að ganga í ágústmánuði komandi. Ég er sannfærð um að fólk hefur ekki áttað sig á þeim skelli sem er yfirvofandi núna, það hefur gert ráð fyrir vaxtabótum í áætlunum sínum. Það er því skylda þingsins að breyta þessu þannig að þessi skerðing gangi ekki yfir heimilin í landinu.