Útreikningur vaxtabóta

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 09:07:00 (8743)


132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

útreikningur vaxtabóta.

[09:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að Atli Gíslason, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem sat hér á þingi fyrir skömmu, flutti ásamt þingflokknum breytingartillögu við frumvarp sem er til umfjöllunar í þinginu, um breytingu á lögum um tekjuskatt, þar sem einmitt er gert ráð fyrir því að leiðrétta þetta, a.m.k. með fyrsta skrefinu, þ.e. að láta skerðingarmörk fylgja verðbólgunni. Það er algjört lágmark að það sé gert, því að afleiðingarnar af hinu stórhækkaða fasteignamati á undanförnum árum koma gríðarlega hart niður á fólki, einmitt fólki sem reynir að komast hjá því að skulda. Hæstv. fjármálaráðherra vildi heldur verðlauna fólkið sem skuldaði meira, en þetta lendir harðast á því fólki sem reynir að komast hjá því að skulda. (Fjmrh.: Og á mestar eignirnar.) Á mestar eignirnar? Það getur vel verið að flokksmenn hæstv. fjármálaráðherra hugsi þannig að eiga sem mestar eignir og skulda sem mest en venjulegt fólk, ungt fólk sem er að kaupa sér íbúð í fyrsta skipti verður fyrir því að fasteignamatið snarhækkar og eignamatið við það, en tekjurnar hækka kannski ekki neitt í samræmi við það. Skerðingarmörkin eru óbreytt, vaxtabæturnar falla niður og þetta fólk stendur eftir með stórskertar tekjur. Það getur ekki verið meiningin hjá ríkisstjórninni, hjá hæstv. fjármálaráðherra, að ráðast einmitt á þetta fólk en það virðist vera svo.

Þetta eru tillögur sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytja, breytingartillaga við frumvarp sem er til umfjöllunar í þinginu, frumvarp sem einmitt á að (Forseti hringir.) taka á öðrum, á fyrirtækjum, vegna sama. Með samþykkt þessarar tillögu getum við leiðrétt þetta að hluta, frú forseti.