Útreikningur vaxtabóta

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 09:17:57 (8748)


132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

útreikningur vaxtabóta.

[09:17]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Auðvitað er ýmislegt til í því sem hér hefur komið fram og engin ástæða til að gera lítið úr því. Þau dæmi sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur nefnt eru eflaust til en það er hins vegar ekki öll myndin. Við vitum ekki hver niðurstaðan verður fyrr en síðar í sumar. Þá bætast við, eins og ég segi, fleiri þættir, t.d. hver staðan verður með íbúðalánin.

Ég tel einfaldlega skynsamlegast fyrir okkur að við höfum allar upplýsingarnar á borðinu um hver staðan í þessum málum er áður en við gerum breytingar en gerum ekki breytingar byggðar á dæmum sem ekki gefa rétta mynd af stöðunni. Það er einfaldlega skynsamlegra að taka ákvarðanir að yfirveguðu ráði en ekki að rasa um ráð fram í þessum efnum frekar en öðrum.