Útreikningur vaxtabóta

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 09:19:15 (8749)


132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

útreikningur vaxtabóta.

[09:19]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er ekki líðandi að hæstv. fjármálaráðherra komist upp með svona málflutning. Það liggur allt fyrir sem liggja þarf fyrir í þessu máli. Hæstv. ráðherra reynir vitandi vits að drepa þessu máli á dreif og blandar inn í það hlutum sem hafa engin áhrif á skerðingu vaxtabóta gagnvart fólki á komandi sumri, t.d. því hvað ríkisstjórnin kann að gera eða ekki gera varðandi framtíðartilhögun íbúðalána. Hvað kemur það því við?

Á grundvelli þegar innlagðra framtala einstaklinga liggur fyrir að þúsundir fjölskyldna missa vaxtabætur sínar með öllu vegna þess eins að fasteignaverð hefur hækkað gríðarlega en skerðingarmörkunum hefur ekki verið breytt. Hv. þm. Atli Gíslason nefndi dæmi upp úr raunverulegu framtali einstæðrar móður í borginni. Það er þannig, með leyfi forseta:

Hún, þ.e. móðirin, skuldaði tæpar 11 millj. í árslok 2004, átti íbúð að fasteignamati 14,6 millj. kr. og greiddi rúmar 500 þús. kr. í vaxtagjöld. Hún fékk fullar vaxtabætur árið 2005, eða 207 þús. kr. Hún skuldað jafnmikið í árslok 2005, það sem fer inn í skattframtalið, sem síðan verður grundvöllur vaxtabótagreiðslnanna eða ekki greiðslnanna í ágúst næstkomandi. Hún greiddi nánast sömu vaxtagjöld eða um hálfa milljón króna. En fasteignamat á íbúð hennar hækkaði um 4,1 millj. kr. milli ára. Hún fær engar vaxtabætur við álagningu ársins 2006. Þetta er raunverulegt dæmi úr skattframtali sem einn færasti lögmaður landsins á þessu sviði gerði fyrir viðkomandi, fyrir hönd viðkomandi stéttarfélags.

Hvað þýðir það fyrir hæstv. fjármálaráðherra að koma með útúrsnúninga og drepa málinu á dreif með þessum hætti sem hann hefur reynt að gera hér? Það þarf að gera þetta núna, til að fólkið verði ekki af vaxtabótunum í ágúst næstkomandi.