Umferðarlög

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 09:26:40 (8750)


132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

umferðarlög.

503. mál
[09:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. 9. gr. þessa lagafrumvarps fjallar um heimildir lögreglu til að stöðva ökutæki og skoða ástand þess og hleðslu. Því er ég sammála. Ég tel að þau verkefni eigi alfarið að vera á ábyrgð lögreglunnar. En í tillögugreininni er jafnframt lagt til að vegaeftirlitsmönnum verði heimilt að framfylgja hluta af lögregluvaldi. Því er ég andvígur.

Ég legg fram breytingartillögu sem felur í sér að eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar verði heimilt að taka þátt í að stöðva ökutæki með lögreglu. Þetta á líka við um farm- og hópbifreiðar, að eftirlitsmönnum sé aðeins heimilt með lögreglu að stöðva bifreiðar, gera könnun á ástandi þeirra og öðru sem nauðsynlegt getur talist.

Það má ekki færa lögregluvald til vegaeftirlitsmanna.