Vinnumarkaðsaðgerðir

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 10:13:46 (8758)


132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

vinnumarkaðsaðgerðir.

788. mál
[10:13]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við í Samfylkingunni fögnum þessu frumvarpi með nýjar áherslur og sýn í vinnumarkaðsmálum og vinnumarkaðsaðgerðum. Forsendur þess að hægt sé að vinna skipulega að heildstæðum og markvissum aðgerðum er að fjármagn fylgi. En því miður er ekki enn í höfn hvernig taka skal á því máli og hve miklu fjármagni verður varið til vinnumarkaðsaðgerða. Það er gagnrýnisvert.

En við treystum því að nægjanlegu fjármagni verði varið til þessara aðgerða og það gangi fram sem fram kemur í nefndarálitinu. Þar er kveðið á um að nefndin leggi áherslu á að þetta fjármagn skili sér og komi úr ríkissjóði. Áhersla er lögð á að það skýrist í haust.

Ég tel líka afar mikilvægt að tekin skyldi upp í þetta frumvarp tillaga mín á þingskjali 67, sem lá fyrir félagsmálanefnd, um mat á mannaflaþörf í atvinnugreinum til að efla ráðgjöf við nemendur í framhaldsskóla- og háskólanámi. Hún er þess efnis að Vinnumálastofnun kanni reglubundið mannaflaþörf og framtíðarhorfur í atvinnugreinum þannig að meta megi atvinnumöguleika námsmanna eftir námsleiðum og efla ráðgjöf við nemendur í framhalds- og háskólanámi. Ég fagna því að sú tillaga hafi náð fram að ganga með þessum hætti og komi inn í þetta frumvarp.

Ég sé í lokin ástæðu til þess, þegar við greiðum atkvæði um þetta mál og það sem við vorum að greiða atkvæði um síðast, um atvinnuleysistryggingar, að þakka samstarf við meiri hlutann um bæði þessi mál. Mjög góð sátt náðist um málin og er það ekki síst að þakka góðri verkstjórn formanns nefndarinnar og fyrir það vil ég þakka.