Landmælingar og grunnkortagerð

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 11:01:47 (8771)


132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

landmælingar og grunnkortagerð.

668. mál
[11:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það hefur orðið niðurstaða hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að sitja hjá við þetta frumvarp á þeirri forsendu að það sé ekki nægilega vel grundað. Við munum hins vegar greiða atkvæði gegn 4. gr. frumvarpsins þar sem verksvið Landmælinga Íslands er skilgreint. Við teljum að sú skilgreining sé of þröng.

Hæstv. forseti. Ég hef ekki forsendur til að meta hvort það sé rétt eða rangt hjá Landmælingum að draga sig úr samkeppnisrekstri. Það kann að vera rétt í sumum tilvikum, öðrum ekki. En með þessari lagagrein er stofnunin þvinguð, með öðrum orðum lögþvinguð, til að draga sig út úr samkeppnisrekstri og slíkt teljum við varasamt.

Ef upp koma á markaði, hjá stofnunum eða fyrirtækjum sem eru í opinberum rekstri, fyrirtæki sem sinna sambærilegum verkum er þeim, með þessari hugsun, gert að draga sig í hlé. Þetta dregur úr frumkvöðulshugsun innan opinberra stofnana og eyðileggur þar allt nýjabrum. Að baki þeirri hugsun býr mjög þröng hugmyndafræði. Við greiðum atkvæði gegn birtingarformi hennar sem er að finna í 4. gr. þessa frumvarps.