Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 12:18:12 (8782)


132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:18]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009. Það er rétt að fagna því sérstaklega að nefndarmenn í iðnaðarnefnd skuli hafa náð saman um þetta mál.

Ég sé ekki betur en að það sem liggur fyrir frá iðnaðarnefnd sé mjög til bóta frá hinu upphaflega plaggi sem hér var lagt fyrir. Þar vekur sérstaka athygli ýmislegt í breytingartillögum nefndarinnar, ekki síst það að hér eru dregin fram þrjú meginmarkmið sem eiga að vera stjórnvöldum leiðarljós á gildistíma áætlunarinnar, þ.e. frá 2006–2009. Það er eðlilegt að taka sérstaklega undir þessi þrjú meginmarkmið og vekja athygli á því sem mér finnst mjög mikilvægt, að fyrsti liðurinn er að stórefla menntun á landsbyggðinni. Það mun ráða hvað mestu til framtíðar að við náum því markmiði, að stórefla menntun á landsbyggðinni.

Annar liðurinn, að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, er ekki síður mikilvægur. En eins og hér hefur áður verið rakið hefur árangur á því sviði verið mun minni en heitstrengingar hafa verið um æðilengi.

Þriðji liðurinn snýr að því að efla Byggðastofnun. Hann er sérstaklega athyglisverður í ljósi þess að hér hefur komið fram frumvarp frá hæstv. iðnaðarráðherra um að leggja Byggðastofnun inn í aðra stofnun. Þetta er fagnaðarefni.

Sama gildir um þær breytingar sem nefndin leggur til á upptalningunni í upphaflegu byggðaáætluninni frá hæstv. iðnaðarráðherra. Ég sé ekki betur en báðar breytingarnar sem þar eru lagðar fram, annars vegar varðandi bættar samgöngur og síðan varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins, séu mjög til bóta, að orðalagið sé mun skýrara og vænlegra til árangurs.

Það er eðlilegt að taka m.a. undir það sem fram kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að þingsályktanir eins og stefnumótandi byggðaáætlun eru ekki af þeirri gerð að það sé tryggt að allt í þeim nái fram. Því miður segir sagan okkur að svo hefur alls ekki verið.

Mig langar að fara örlítið nánar í nokkur atriði í nefndaráliti iðnaðarnefndar og byrja á stóreflingu menntunar á landsbyggðinni. Þar er hreyft afar mikilvægu máli, sérstaklega þar sem segir að huga þurfi að stöðu þekkingarsetra á landsbyggðinni og skilgreina stjórnsýslulega stöðu þeirra stofnana. Það mál þolir enga bið. Þekkingarsetrin hafa sem betur fer fengið að þróast án þess að um þau væri mjög stífur lagarammi en nú er þróunin komin á það stig að mikilvægt er að skilgreint verði sérstaklega hver stjórnsýsluleg staða þeirra er. Það er eðlilegt að þrjú ráðuneyti beri á þessu ábyrgð og mér sýnist vel til fundið að það séu þau þrjú sem nefnd eru í nefndarálitinu, þ.e. menntamálaráðuneytið, fjármálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið.

Efling menntunarinnar heyrir auðvitað fyrst og fremst undir menntamálaráðuneytið en án þess að tengja það við iðnaðarráðuneytið, sem samkvæmt skipulaginu fer með byggðamálin, og fjármálaráðuneytið, sem er með fjármagnið, held ég að þetta sé til lítils, þ.e. þau þurfa að vera samstiga í slíkri vinnu. En þetta er fagnaðarefni og vonandi að fylgja megi málinu eftir.

Varðandi annan liðinn, b-liðinn, um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, verður því miður að segjast að það hefur ekki náðst nægjanlega fram eins og áætlanir hafa verið um í fyrri áætlunum. Það er einnig athyglisvert að nefndin virðist halda að sú stefna hafi verið í öllum byggðaáætlunum. En þróunin hefur því miður verið sú til að byrja með var talað um að tvöfalda fjölda nýrra opinberra starfa á landsbyggðinni miðað við höfuðborgarsvæðið. Síðan var stigið skref í þá átt að þau ættu að vera jafnmörg en í síðustu áætlun var ekkert á það minnst. Það er ekki rétt sem kemur fram í nefndarálitinu, að í fyrri byggðaáætlun hafi verið kveðið sérstaklega á um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Svo var því miður ekki í þeirri seinustu en er komið inn aftur. Við skulum vona að það nái fram að ganga.

Það er líka gert ráð fyrir því, sem ég vona að sé fyrsta skrefið í átt að því að koma byggðamálunum aftur til forsætisráðuneytisins, að forsætisráðuneytið beri ábyrgð á þessu. Það er eðlilegt þar sem það er samræmingarráðuneyti. Það væri eðlilegt að byggðamálin, sem eru af þeirri gerðinni að þau tengjast nær öllum ráðuneytum, væru alfarið hjá forsætisráðuneytinu.

En þessi liður um Byggðastofnun er augljóslega svar iðnaðarnefndar við frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra. Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi. Nýsköpunarmiðstöðin er látin liggja í nefndinni, var afgreidd út úr nefndinni en ekki gert meira með málið. Það segir okkur að það mál fær ekki framgöngu hér en skömmu síðar kemur svar frá iðnaðarnefndinni sem fer í allt aðra átt en frumvarpið. Hvatt er til að efla Byggðastofnun og taldir upp margir liðir um hvernig eigi að standa að því.

Það er ekki síður athyglisvert, ég vil vekja sérstaka athygli á því að lokum, að hv. þm. Jóhann Ársælsson útskýrði í raun hvað átt væri við af hálfu nefndarinnar varðandi það sem segir hér, með leyfi forseta:

„Í því felst að Byggðastofnun verði tryggðir fjármunir í fjárlögum til þess að sinna lögbundnu hlutverki sínu.“

Skýringin var sú að það væri hlutverk fjárlaganefndar að kanna sérstaklega og fylgjast með að í fjárlögum sé tryggt fjármagn til að ná þessu fram. Þetta er verulega gott fyrir fjárlaganefndina að vita. Þetta er skilningur iðnaðarnefndar á þessu plaggi. Þar sem hann hefur verið útskýrður fyrir þingheimi þá lítum við svo á að eftir að áætlunin hefur verið samþykkt verði það a.m.k. skoðun meiri hluta þingsins að þannig eigi að standa að málum. Því get ég lofað, frú forseti, að á það verður minnt í störfum fjárlaganefndar, að þessi skilningur hafi komið hér fram.

Það var einnig athyglisvert það sem hv. þingmaður sagði um að þetta væri ekki háð tillögum einstakra hæstv. ráðherra. Mér fannst hv. þingmaður að vísu ganga nokkuð langt í þeim efnum. Ég tók orð hans hins vegar sem hvatningu til meiri hluta fjárlaganefndar um að láta af því að láta hæstv. ráðherra stýra sér í einu og öllu. Ég trúi því að a.m.k. hluti fjárlaganefndarmanna, vegna þess að ég veit að nokkrir fjárlaganefndarmenn sitja í iðnaðarnefnd og eru aðilar að þessu áliti, hafi vaknað og áttað sig á ábyrgð sinni í fjárlaganefnd gagnvart því hvernig vinna á að fjárlögum. Við bíðum auðvitað spennt til haustsins með að sjá hvernig til tekst.