Flugmálastjórn Íslands

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 13:00:55 (8787)


132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

707. mál
[13:00]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Í 2. umr. um frumvörp til laga um Flugmálastjórn Íslands og stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, hefur hv. þm. Kristján L. Möller mælt hér fyrir minnihlutáliti sem ég styð varðandi þau mál.

Ég vil segja hér í upphafi að það eru fá mál sem ég hef orðið vitni að að hafi komið verr undirbúin inn til þings og inn til nefndar. Það er nærri því óforskammað með hvaða hætti þetta mál hefur komið inn til þingsins. Samt átti að keyra það í gegn í vor á fyrstu dögum í maí án umsagnar og helst án þess að nokkrir væru kallaðir til. Slíkt var offorsið, slík var óbilgirnin í að keyra það áfram. Þær umsagnir sem hafa borist frá aðilum eins og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja eða Félagi íslenskra flugumferðarstjóra eru svo afdráttarlausar gegn hlutafélagavæðingu þessarar þjónustu að það ætti að vera hverjum manni ljóst sem að þessu máli hefur komið að hér vorum við á hættulegri braut, hér var verið að kynna mjög illa unnið mál. Enda var það svo að þegar þeir komu á fund okkar, annars vegar fulltrúar samgönguráðuneytisins og hins vegar fulltrúar t.d. Félags íslenskra flugumferðarstjóra þá sökuðu þeir hvorir aðra um að skilja ekki málið sem þeir væru að flytja. Þó sögðu fulltrúar samgönguráðuneytisins og hæstv. ráðherra hér í framsögunni að þetta mál væri unnið mjög vel og í mikilli sátt. Það sama sagði hv. formaður samgöngunefndar hér áðan að þetta hefði verið mjög vel kynnt og mjög vel unnið, sem er al-, al-, alrangt. Fá mál hafa komið verr unnin hér inn á Alþingi og fá mál hafa verið keyrð í gegn af jafnmikilli óbilgirni og hér er um að ræða.

Örstutt um þessi mál. Þetta er bara hluti af einkavæðingaræðinu sem hefur í rauninni heltekið Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, sem má í rauninni kalla Framsóknarsjálfstæðisflokkinn í þeim efnum, og nú er m.a. ráðist að flugvöllunum. Til þessa hefur verið þjóðarsátt um að grunnnet samgangna skuli vera byggð upp og rekin á opinberum grunni. Þá sátt á nú að rjúfa því að í frumvarpinu stendur: „Ríkisstjórninni er heimilt að stofna hlutafélag um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands og tengda starfsemi. … Tilgangur félagsins skal vera að annast rekstur og uppbyggingu flugleiðsöguþjónustu, þar með talið flugumferðarþjónustu, fjarskipta- og leiðsögukerfa, að annast rekstur og uppbyggingu flugvalla, svo og aðra skylda starfsemi.“

Flugvellirnir eru hluti af grunnneti samgangna landsins og rekstur þeirra mikilvægur hlekkur almannaþjónustunnar. Þótt kveðið sé á um að allt hlutafé hins nýja fyrirtækis skuli vera í eigu ríkisins og það ekki selt hefur reynslan sýnt að slík loforð eru ekki einnar messu virði. Frumvarpið gerir einmitt ráð fyrir að hægt sé að búta félagið niður og selja út úr því verkefni eða semja út úr því verkefni þótt hlutaféð standi eftir. Menn þekkja sögu Landssímans sem var hlutafélagavæddur undir hástemmdum yfirlýsingum um að hann yrði ekki seldur. Þegar þess var svo krafist að t.d. grunnfjarskiptakerfinu yrði haldið eftir við söluna var sagt að það væri ekki hægt að skilja það frá. Nú heyrum við að hinir nýju eigendur eru að selja grunnfjarskiptakerfið út úr Símanum sem stjórnvöld héldu áður fram að ekki væri hægt að gera.

Einkavæðingin og háeffunin á rétt á sér í samkeppnisrekstri þar sem markmið eigendanna er að ná sem mestum arði af hlutafénu. Ábyrgð eigendanna takmarkast aðeins við hlutafjárupphæðina og hlutirnir geta gengið kaupum og sölum. Fyrirtækið getur þess vegna orðið gjaldþrota ef svo ber undir. Þegar nú á að fara að einkavæða flugleiðsögn og flugvellina, einkavæða flugvöllinn á Ísafirði, á Gjögri, á Sauðárkróki, á Akureyri, á Egilsstöðum, alla flugvelli landsins, þá hlýtur hver og einn að spyrja sig: Eru menn að verða vitlausir? Hvers konar háttalag er þetta sem síðan er keyrt áfram með þessum hætti?

Starfsmenn flugvalla og flugþjónustu vítt og breitt um landið eru nú opinberir starfsmenn og bera ábyrgð og hafa kjör samkvæmt því. Með frumvarpinu er stofnaður nýr lögaðili sem lýtur umgjörð einkarekstrar, hlutafélag sem yfirtekur uppbyggingu og rekstur flugvalla. Öllu starfsfólki er sagt upp og þó margt af því sé endurráðið hjá hlutafélaginu er þar nýr viðsemjandi, nýtt ráðningarform og kjarasamningar eru allt aðrir, enda virðist eitt af markmiðum frumvarpsins vera að skerða ráðningarkjör starfsmanna. Miðað við núverandi umsvif breyta þessi lög t.d. starfskjörum hjá um 300 manns. Upplýsingaréttur til almennings, upplýsingaskylda stjórnvalda fellur brott, andmælaréttur, lögboðinn uppsagnarfrestur, skrifleg ástæða fyrir uppsögn og verkfallsréttur og sú umgerð opinberra starfsmanna sem lýtur að verkfallsrétti fellur niður.

Frú forseti. Í greinargerð er undirstrikað að gæði og öryggi flugþjónustu og rekstur flugvalla hér á landi sé með því allra besta sem gerist. Flugleiðsögn og umsjón með flugleiðsögn í kringum landið er unnin samkvæmt milliríkjasamningum en nú á að fela það hlutafélagi. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lítum á þá þjónustu sem hér á að fara að hlutafélagavæða sem eina grunnalmannaþjónustu landsmanna sem ekki eigi að hlutafélagavæða. Við fengum t.d. ekki að ræða við fulltrúa starfsmanna BSRB eftir að þeirra umsögn kom fram. Við fengum ekki fulltrúa frá háskólanum sem um var rætt, lagaprófessor, til þess að fara yfir lögmæti staðhæfinga sem þarna var haldið fram. Það kom enginn frá fyrirtækjum í flugþjónustu, í flugrekstri fyrir nefndina. Nei, hér keyrði blind einkavæðing málið fram.

Frú forseti. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum algjörlega andvíg þeirri einkavæðingarstefnu sem hér er keyrð áfram gagnvart flugvöllum og flugleiðsögn og skyldri starfsemi í landinu.