Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Laugardaginn 03. júní 2006, kl. 15:35:19 (8808)


132. löggjafarþing — 124. fundur,  3. júní 2006.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[15:35]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Það er sannarlega ánægjulegt þegar stjórn og stjórnarandstaða ná saman um mál eins og hér er. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar á Alþingi greiddu atkvæði gegn þessari 2. gr. í morgun og sá sem hér talar varaði líka við 1. umr. við þeirri leið sem þar átti að fara. Ég fagna því að björgunarsveitir landsins skuli fá að kaupa gjaldfrjálsa olíu. Í þessu frumvarpi var sá galli að menn ætluðu að fara að byggja ofan á þungaskattskerfið sem átti að leggja af með upptöku olíugjaldsins og búa til þungaskattskerfi fyrir björgunarsveitabíla landsins.

Ég sagði hér í morgun að það hefði haft í för með sér kostnað fyrir björgunarsveitirnar upp á 70 þúsund á hvern bíl, 200 bílar alls eða 14 millj. kr. Þar að auki hefði orðið mikill kostnaður við að færa bíla til aflestrar eins og var í gamla daga og fyrir fulltrúa ríkisins í fjármálaráðuneytinu að framfylgja þeirri stefnu og innheimta eftir þessu kerfi. Ég get því ekki annað, virðulegi forseti, en komið hér upp og fagnað því að augu stjórnarliða hafa opnast hvað þetta varðar. Sú vonda tillaga sem þarna var er hér felld brott með hinni þverpólitísku tillögu sem hv. þm. Birgir Ármannsson hefur mælt fyrir og flutt er af hv. þingmönnum Dagnýju Jónsdóttur, Ögmundi Jónassyni, Guðjóni A. Kristjánssyni og þeim sem hér stendur. Þetta er fagnaðarerindi, fagnaðarefni. (Gripið fram í.) Já, það getur verið fagnaðarerindi líka þetta hvað varðar björgunarsveitirnar. (Gripið fram í.)

Það er rétt að vekja athygli þingheims á því, þegar rökstyðja þarf hvers vegna þetta var gert, að björgunarsveitir landsins greiða í kringum 7–10 millj. kr. í bensíngjald, sem rennur m.a. til Vegagerðarinnar, fyrir að nota bensín á björgunarsveitabáta og snjósleða sem aldrei aka um þjóðvegi landsins. Eins og þetta var fram að gildistöku þessara laga þurftu björgunarsveitirnar að borga olíugjald af snjóbílum sem aka meðal annars uppi á jöklum. Það er líka rétt að vekja athygli á því að hæstv. fjármálaráðherra þarf ekki að harma hlutinn sinn hvað þetta varðar þó að nokkrar tekjur renni þarna úr eða skattheimtan minnki til ríkissjóðs af þessu. Í gögnum frá fjármálaráðuneytinu er það staðfest við efnahags- og viðskiptanefnd vegna vinnslu þessa máls að tekjur ríkissjóðs af olíugjaldinu á þessu ári eru áætlaðar 1.500 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Það hefur nú einhvern tíma heyrst úr þessum ræðustól að sú skattheimta sé á þeirri ferð sem hún er. Sá sem hér talar hefur oft bent á það en hann hefur aldrei fengið þvílík og önnur eins gögn úr fjármálaráðuneytinu sem staðfesta það.

Nú sé ég að ég fær merki víða úr salnum sem á körfuboltamáli þýðir að tíminn sé úti. Ég læt hér lokið máli mínu en fagna málalyktum.