Málefni aldraðra

Þriðjudaginn 11. október 2005, kl. 18:12:52 (412)


132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[18:12]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég endurtek að í gangi er vinna í ráðuneytinu um að marka stefnu sem vissulega liggur fyrir, við þurfum bara að skoða stöðuna. Stefna okkar í búsetumálum aldraðra hefur legið fyrir. Stefna okkar er sú að gera öldruðum kleift að búa í sínu umhverfi sem lengst og það séu fjölbreytt úrræði. Við höfum markað þá stefnu að fækka og útrýma margbýlum. Hins vegar kann að vera að það séu einhver tvíbýli sem getur þá markast af því að t.d. sambúðarfólk eða hjón búi á þeim tvíbýlum. En stefnan er sú að útrýma því að margir séu í sama rými á hjúkrunarheimilunum. Það er stefna okkar og hefur verið.

Hins vegar tek ég fram, eins og ég tók fram í utandagskrárumræðunni í dag, að mjög áríðandi er að gera fólki kleift með þjónustu að vera í sínu umhverfi sem lengst eða þá að vera í þjónustuíbúðum eða í auknu öryggi. En ef fólk þarf sólarhringsþjónustu þá þurfum við hjúkrunarrými, það er alveg ljóst. Hjúkrunarrými eru hér fleiri en í nágrannalöndunum, við erum meira stofnanamiðuð en þar.