Málefni aldraðra

Þriðjudaginn 11. október 2005, kl. 18:17:19 (414)


132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[18:17]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Háttv. þingmaður kemur hér inn á mál sem er vissulega vandamál. Ég vil nú ekki taka undir að það sé allt saman Sóltúni að kenna, vandkvæðin á vinnumarkaði hér á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Það er spenna á vinnumarkaði og það hefur komið niður á ýmsum þjónustustörfum, m.a. heimahjúkrun og dagvistarheimilum á höfuðborgarsvæðinu. En það er alveg rétt að Sóltún er með sérstakan samning. En sá samningur er um húsnæðiskostnað. Þeir byggðu húsnæðið sem þeir eru með í Sóltúni algerlega og fá þann kostnað uppiborinn í daggjöldunum, það er munurinn á þeim samningi og öðrum. Hjúkrunarþyngd á einnig að vera mjög mikil þar og við höfum sérstök mælitæki á það sem er RAI-matið.

Spenna á vinnumarkaði skapar auðvitað vandkvæði í heimahjúkrun og heimaþjónustu eins og öðrum greinum. Við höfum verið að bæta verulegum fjármunum inn í heimahjúkrunina á undanförnum árum, samkvæmt þeim samningi sem við gerðum við Samtök aldraðra á sínum tíma. Og í samþættingunni við þjónustu Reykjavíkurborgar felast miklir möguleikar sem ég lít með bjartsýni til.