Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 10:58:56 (479)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[10:58]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stend við allt sem ég hef sagt um þessi mál undanfarna daga. Ég var að tala um skatttekjur í samanburði við Norðurlöndin. Ég var ekki að tala um bætur í því sambandi en skatttekjurnar markast náttúrlega af því að þar inni er atvinnuþátttaka eldra fólks og aukinn réttur í lífeyrissjóðum.

Varðandi forsendurnar í fjárlögunum núna þá eru almennar launahækkanir í upphafi árs áætlaðar 2,5%, verðlagsspá 3,9%. Það er 1,9% hækkun vegna fjölgunar bótaþega en verðlagshækkun 4%. Þeir sem koma nýir inn núna hafa meiri tekjur af lífeyrisgreiðslum en áður þannig að það er ekki rétt að bæturnar hafi lækkað í fjárlögunum í ár. Hins vegar er sú gamla deila og mismunandi skoðun um það hvort bætur eigi að fylgja launaþróun. Það er rétt að deilt er um það og við eigum í viðræðum við eldri borgara um þessi mál eins og fram hefur komið.

Varðandi tillögur á landsfundi Sjálfstæðisflokksins vil ég taka fram að ég hef ekki verið í undirbúningsnefndum fyrir tillögugerð á þeim fundi þannig að ég get engu svarað til um hvað þar fór fram.