Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 11:01:10 (480)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:01]
Hlusta

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég trúi því ekki að hæstv. heilbrigðisráðherra haldi því fram að ekki sé verið að lækka grunnlífeyri almannatrygginga í fjárlögum næsta árs, lækka þau að raungildi þegar grunnlífeyririnn hækkar aðeins um 2,8% þegar við erum búin að draga frá fjölgunina í 4% verðbólgu. Auðvitað er verið að skerða grunnlífeyrinn og ekkert annað. Þó að tekjutryggingaraukinn aukist hjá 300–400 manns er fjármagn til þess fengið með því að lækka bifreiðastyrk öryrkja og aldraðra. Það er ekki stórmannlegt, virðulegi forseti, að fara þá leið ofan á allar skerðingar sem þessir hópar hafa mátt sæta í tíð núverandi ríkisstjórnar. Og ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra komi eina ferðina enn upp í þennan ræðustól og vefengi útreikninga Samtaka aldraðra. Þetta eru sambærilegir útreikningar og t.d. ASÍ hefur sett fram en það stendur ekki steinn yfir steini í þessum útreikningum hæstv. ráðherra. Maður furðar sig á upp úr hvaða hatti hann hefur dregið þessar tölur og hvaðan þær eru fengnar vegna þess að ekki er hægt að vera með þennan samanburð eins og hæstv. ráðherrar gerir. Hann ber saman og segir að lífeyrisgreiðslur hafi aukist um 10% á móti 14% aukningu almennrar launavísitölu árin 1998–2003. Eru ekki ráðherrarnir, m.a. hæstv. forsætisráðherra, alltaf að guma af því að kaupmáttur hafi aukist um 50%? Af hverju er ráðherrann að tala um 14%? Þær tölur sem ráðherrann ber fram, hann þarf hreinlega að endurskoða þær vegna þess að þær eru rangar. En þær tölur sem ég fór með, sem Samtök aldraðra hafa nefnt í þessu sambandi og ASÍ eru réttar og síðan er mælikvarðinn ekki síst vasi og budda lífeyrisþega sem hafa fundið grimmilega fyrir þessum skerðingum sem þeir hafa orðið fyrir á undanförnum árum.