Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 11:15:29 (490)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[11:15]
Hlusta

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að hv. þingmanni finnst það bara allt í lagi, eðlilegt og sjálfsagt að lífeyrisþegar greiði núna miklu hærra hlutfall í skatt en þeir greiddu fyrir 10 árum af samsvarandi tekjum. Það er alveg ljóst, virðulegur forseti, þegar litið er á skattatillögur ríkisstjórnarinnar sem við höfum rætt á umliðnum þingum, að lífeyrisþegar og tekjulágir hópar hafa farið mjög illa út úr því, m.a. vegna skerðingar á skattleysismörkum sem ég hef farið hér í gegnum.

Ég skil það líka vel, virðulegi forseti, að hv. þingmaður treystir sér ekki til að taka afstöðu til þeirrar tillögu sem fram kemur á landsfundi sjálfstæðismanna miðað við það hvernig hann hefur talað. Ég hef ekki séð tillögu frá hv. þingmanni, hvorki í orðum hans í ræðustól né í þingskjölum um það hvernig hann vill bæta kjör lífeyrisþega og aldraðra. Þess vegna er ég ekkert hissa á því þó hann vilji ekki taka undir tillöguna sem liggur fyrir frá landsfundi sjálfstæðismanna en það verður fróðlegt að fylgjast með því á landsfundinum.