Afkomutrygging aldraðra og öryrkja

Fimmtudaginn 13. október 2005, kl. 12:02:31 (502)


132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[12:02]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem ég held að sé talsvert sammála mér um þessi atriði, tók á sprett frá skrifstofu sinni og hingað í ræðustól Alþingis þegar hann heyrði mig tala um opinbera lífeyrissjóði og opinber störf. Það er gott. Ég tók á sprett, virðulegi forseti, inn á Alþingi þegar ég sá að ég hafði tækifæri til að taka dæmi af þeim lífeyrissjóði sem ég hef gert að umtalsefni og þeim réttindum sem fylgja í þeim sjóði og þeim smánarbótum sem hægt er að greiða úr honum vegna þess að hann er ekki nógu öflugur. Hann hefur ekki ávaxtað sitt pund, peningar hans hafa sennilega brunnið upp í verðbólgu og kannski brunnið upp líka vegna þess að viðkomandi lífeyrissjóður lagði e.t.v. fram peninga til að halda við atvinnu í ákveðnum byggðarlögum á því svæði sem lífeyrissjóðurinn náði yfir og e.t.v. hafa fyrirtæki farið á hausinn og fé tapast úr sjóðnum. Þetta var meðan svo var. Það gerði það að verkum að stjórnin þurfti að koma saman og skerða þau réttindi sem viðkomandi fólk átti eins og ég hef tekið skýrt dæmi um þannig að spretthlaup mitt og hv. þingmanns er ekkert ólíkt.

Hv. þingmaður tók á sprett vegna Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Ég get tekið dæmi um opinberan starfsmann til mótvægis við dæmið sem ég kom með um þennan verkamannalífeyrissjóð, virðulegi forseti, en ég ætla ekki að gera það hér í ræðustól. (ÖJ: Jú, gerðu það.) Nei, ég ætla að gera það á eftir augliti til auglitis við þig vegna þess að það dæmi er of rekjanlegt að mínu mati. En það var himinn og haf milli þeirra réttinda sem verkamannafjölskyldan hafði og opinberi starfsmaðurinn hafði úr sínum sjóði. Og hvernig skyldi opinberi sjóðurinn hafa verið borgaður? Hann var töluvert mikið borgaður úr öðrum opinberum sjóði. Virðulegi forseti. Það dæmi ætla ég að fá að eiga við hv. þingmann.

(Forseti (SP): Forseti vill minna hv. þingmenn á að ávarpa aðra hv. þingmenn með réttum hætti.)